Íslensk björgunarsveit, mynd tekin árið 1967

Síðan 1926

Hringrás

Trébátur í ólgusjó, mynd frá árinu 1930

Með þjóðinni í 98 ár

Í fyrstu framleiddi 66°Norður vinnufatnað fyrir íslenska sjómenn sem áttu allt sitt undir því að komast heilir til hafnar. Fyrir þá sem störfuðu til sjós hér á árum áður var klæðnaðurinn oftar en ekki spurning um líf og dauða þegar tók að kólna og hvessa á miðunum. Það vantaði því ekki hvatann fyrir Hans Kristjánsson frá Suðureyri í Súgandafirði til að stofna fyrstu sjóklæðagerð landsins fyrir níutíu árum síðan.  

Hans var fæddur 1891, sonur Kristjáns Albertssonar og Guðrúnar Þórðardóttur. Sagan segir að norskur skipstjóri sem farist hafði í Súgandafirði, Hans Ibsen að nafni, hafi birst Guðrúnu í draumi meðan hún var ólétt og vitjað nafns. Hans var skírður eftir skipstjóranum framliðna og gerðist ungur sjómaður, fyrst á þilskipum á Ísafirði. Uppvaxtarár hans voru tími örra breytinga og mikils vaxtar í íslenskum sjávarútvegi. Vélbátar og togarar leystu af hólmi árabáta og þilskip og stór sjávarútvegsfyrirtæki breyttu skipulagi útgerðarinnar varanlega. Frá 1907 og fram yfir fyrri heimsstyrjöld var stöðugur vöxtur í sjávarútvegi.

Ljósmynd af Hans Kristjánssyni

Sjóklæðagerðin flytur til Reykjavíkur

Á þessum tíma klæddust flestir sjómenn skósíðum stökkum frá Noregi og Bretlandi og báru sjóhatta. Hans fékk styrk frá Fiskifélagi Íslands til að ferðast til Noregs sumarið 1924 þar sem hann kynnti sér sjóklæðagerð. Þegar hann sneri heim hóf hann undirbúning sjóklæðagerðar á Suðureyri en honum gekk treglega að finna hentugt húsnæði. Þó hélt hann framleiðslunni úti heilan vetur við erfiðar aðstæður. En Hans hafði háleitar hugmyndir og vildi búa til sjóklæði fyrir alla landsmenn svo ekki þyrfti að reiða sig á innflutt föt. Til að svo gæti orðið þurfti hann að geta dreift vörunni auðveldlega og átt í góðu sambandi við alla landshluta. Það fór því svo að Hans Kristjánsson flutti með fjölskyldu sína til Reykjavíkur árið 1926 og stofnsetti Sjóklæðagerð Íslands í bakhúsi við Laugaveg 42. 


Frá sjóstökkum yfir í vinnufatnað

Sjóklæðagerðin framleiddi í fyrstu eingöngu sjóstakka úr olíubornum striga. En þetta voru umbrotatímar í íslensku þjóðfélagi. Nýir atvinnuhættir kölluðu á aukna sérhæfingu í störfum, hvert starf kallaði á viðeigandi klæðnað, og eftirspurn eftir sérhæfðum vinnufatnaði var því heilmikil. Vörunum fjölgaði hratt og fyrirtækið stækkaði eftir því. Árið 1933 voru 34 í vinnu hjá fyrirtækinu og voru yfirmenn þá ótaldir. Auk sjófatnaðar voru framleiddir frakkar, úlpur, kápur og vinnufatnaður að breskri og norskri fyrirmynd í samstarfi við Vinnufatagerð Íslands. Fatnaður sjóklæðagerðarinnar var ekki lengur bundinn við sæfarendur heldur mátti líta framleiðsluna á flestum sviðum þjóðfélagsins. Klæðnaðurinn skipti sköpum fyrir verkafólkið og jók á öryggi þeirra og hreinlæti. 

Vörulínan breytist með þjóðinni

Það dró síst úr eftirspurninni þegar leið á öldina. Herliðið kom 1940, sjávarútvegurinn blómstraði í stríðinu, efnahagurinn tók annan kipp með Marshallaðstoðinni 1948 og frá 1951 hafði bandaríski herinn hér fasta viðveru með öllum þeim störfum sem honum fylgdu. Síldveiðar tóku við sér um miðjan sjötta áratuginn og á þeim sjöunda margfaldaðist síldaraflinn. Stóriðja hófst á áttunda áratugnum og ferðamannalandið Ísland varð til á tíunda áratugnum. Á fáum áratugum sögðu Íslendingar að mestu skilið við fátæktina og frumstæðar aðstæðurnar sem þeir höfðu vanist í þúsund ár og gerðust sjálfstæð og nútímaleg þjóð sem varð brátt með þeim ríkustu í heimi. 

Þótt sjóstakkurinn hafi í dag runnið sitt skeið þá eru afsprengi hans - sjóbuxurnar, anorakkarnir og jakkarnir - enn í notkun dag og nótt á fiskimiðunum. Þau hanga líka í þúsundatali í fataskápum landsmanna sem grípa til þeirra þegar illa viðrar við leik eða störf, sem er ekki sjaldan hér við sextugustu og sjöttu breiddargráðu norður. Á þessum síðum hefur svipmyndum af Íslendingum í fatnaði Sjóklæðagerðarinnar síðustu níutíu ár verið safnað saman. Þetta eru myndir af sjómönnum, verkafólki, björgunarsveitum, krökkum í útilegu eða bæjarvinnunni, útivistargörpum og pörum á leið á ball. Þetta eru svipmyndir af þjóð sem hefur gegnum tíðina gert hvað hún getur til að draga fram lífið á hjara veraldar. 

Hringrás

Kynntu þér einnig

Hönnunargildi

Við hönnun á flíkum okkar er notagildi og ending ávallt haft að leiðarljósi.

Lesa
Umhverfið

Allri framleiðslu og dreyfingu afurða fylgir umhverfisfótspor. Hvernig eiga fyrirtæki þá að vera "sjálfbær" og hefur það orð enn einhverja merkingu?