Snæfell

Drottning Austurlands

Myndband og ljósmyndirVíðir Björnsson
TextiÍvar Pétur Kjartansson
SnjóbrettafólkRúnar Pétur, Ívar Pétur og Anni

Snæfell er stundum kallað Drottningin, drottning austfirsku fjallana og það er ekki að ástæðulausu.

Stærsta einstaka fjall Íslands að rúmmáli

Snæfell er hæsta fjall Íslands utan jökla, fjórði hæsti tindur Íslands og stærsta einstaka fjall Íslands að rúmmáli. Það rís úr 700 metra hæð á öræfunum norð-austan við vatnajökul upp í 1833 metra og gnæfir þaðan yfir Héraði og stórum hluta Austurlands með snjóhvítum hlíðum allt árið um kring.

Ef þú elst upp á Austurlandi, með örlítinn áhuga á fjöllum, þá blasir þessi 10 þúsund ára eldstöð við þér allt frá barnæsku og verður svolítið að hið hinu heilaga grali. Það andar engin austfirsk fjalla áhugamanneskja rólega fyrr en hún er búin að fara á Snæfell að minnsta kosti einu sinni.

Við sem erum alin upp á Austfjörðum erum vön háum fjöllum fjarðanna allt í kringum okkur en þau eru í bakgarðinum okkar, bókstaflega. Bæirnir á Austfjörðum eru byggðir í rótum fjallana sem rísa úr sjónum og mynda firðina. Snæfell er aftur á móti á allt öðrum skala en fjöll fjarðana við ströndina.

Snæfell er svo dáleiðandi og freistandi því það sést allt árið um kring frá Fljótsdalshéraði og virðist vera svo nálægt. Það er næstum því eins og þú getir skokkað þangað frá Egilsstöðum en fjallið er mun lengra í burtu en það lítur út fyrir að vera

Það andar engin austfirsk fjalla áhugamanneskja rólega fyrr en hún er búin að fara á Snæfell að minnsta kosti einu sinni.

Áætlunin var einföld; Taka saman nauðsynlegan búnað, koma okkur upp að rótum fjallsins að suð-austan verðu

Í lok maí 2022 sáum við fram á nokkra daga veðurglugga fyrir leiðangurinn sem leit næstum því of vel út til að vera sannur. Við hreinlega urðum að fara! Það sem við áttum eftir að komast að síðar er að veðrið var reyndar næstum því of gott.

Áætlunin var einföld; Taka saman nauðsynlegan búnað, koma okkur upp að rótum fjallsins að suð-austan verðu, slá upp tjaldbúðum, renna okkur eins mikið og kostur væri næstu tvo daga og komast svo heim heilu og höldnu. Það er aðeins stuttur tími árs, yfir hásumar og snemma hausts, sem hægt er að keyra upp að rótum Snæfells með góðu móti. Svo til þess að komast að fjallinu og eyða þar nokkrum dögum á einhverjum öðrum árstíma krefst góðs undirbúnings og skipulags.

Vegirnir upp að fjallinu voru enn lokaðir eftir veturinn og allt svæðið í kringum Snæfell að mestu ennþá þakið vetrarsnjó þó vorið væri farið að minna á sig allt í kring með einstaka læk og ám sem voru byrjuð að brjóta sér leið á yfirborðið. Vegna snjómagnsins höfðum við þann eina kost að “skinna” á brettunum okkar yfir 5 kílómetra langa hálendisbreiðu í útjaðri Eyjabakka til að ná upp að rótum fjallsins með allann þann búnað sem þarf.

Þó við stefndum aðeins á að eyða tveimur nóttum við fjallið er búnaðurinn sem þarf fyrir svona ferð fljótur að hlaðast upp

Hverju skal klæðast

Lykilbúnaður fyrir ferðina

Er við héldum yfir snævi þakkta breiðuna í átt að Snæfelli á föstudags eftirmiðdegi gátum við ekki ímyndað okkur breytingarnar sem áttu eftir að verða á svæðinu á næstu tveim dögum. Veðurspáin var vissulega góð en ef reynslan hefur kennt okkur eitthvað að þá er aldrei of varlega farið þegar kemur að aðstæðum á hálendi Íslands og veður getur breyst hratt þarna uppfrá.

Það var nokkuð blautt, þungbúið og lítið skyggni þegar við náðum loks upp að rótum Snæfells á föstudagskvöldi og því ekkert annað að gera en að drífa upp tjaldið, hoppa inn í svefnpoka og safna kröftum fyrir næstu tvo daga. Við vöknum um klukkan 7 um morguninn eftir, blaut af svita í þykkum vetrarsvefnpokum, en ótrúlegt en satt, nokkuð mátulegum lofthita inní tjaldinu. Við opnum tjaldið og blindumst samstundis af glampandi sólinni sem nú þegar var kominn hátt á loft og ekki ský að sjá á himni. Lofthitinn var þá þegar að nálgast 15 gráður svona snemma morguns og það 700 metra fyrir ofan sjávarmál. Veðurspáin virtist ætla að standast og gott betur. Þegar augun höfðu aðlagast skærri birtunni gátum við loks virt fyrir okkur drottninguna sjálfa sem gnæfði yfir okkur! Það mátti engan tíma missa. Næring, nesti fyrir daginn, gera bretti klár, athuga öryggisbúnað, nóg af sólarvörn og svo drífa sig af stað.

Snæfell er svo stórt fjall að við vissum að með aðeins tvo heila daga til að skinna og renna okkur þar gætum við aðeins klórað í yfirborðið af því sem væri mögulegt að gera á fjallinu. Möguleikarnir eru nær endalausir, allt frá bröttum klettalínum og giljum yfir í risastórar opnar brekkur með allt að 1000 metra í fallhæð og mikilfenglega skriðjökla í bakgrunn yfir í minni árfarvegi og gil út um allt sem eru eins og leikvöllur fyrir snjóbrettafólk. Það væri hægt að eyða mörgum vikum í að skinna á Snæfelli einu saman án þess að renna sér sömu línurnar tvisvar.

Þegar augun höfðu aðlagast skærri birtunni gátum við loks virt fyrir okkur drottninguna sjálfa sem gnæfði yfir okkur

Þrátt fyrir að sumarið hafi komið á augabragði þessa helgi sem við eyddum uppfrá verður samt að hafa í huga að á toppi Snæfells í 1833 metra hæð er nær alltaf vetur. Þessi helgi var engin undantekning. Á toppnum var hávaðarok, kviður sem gerðu þér erfitt um kleyft að standa á fótum og hiti rétt undir frostmarki. Þá komu Snæfell jakkarnir að góðum notum yfir hin lögin af fatnaði til að hlífa okkur fyrir vindinum.

Þessir tveir dagar sem við eyddum á Snæfelli liðu hjá eins og draumur. Þetta var nokkuð einfalt líf þar sem það eina sem þú þarft að hugsa um er að næra þig vel, hvílast, skinna á brettunum og renna þér í stórkostlegum vorsnjó í glampandi sól. En á meðan við nutum sólarinnar á fjallinu hafði hún áhrif á fleira heldur en sólbrennd andlit okkar.

Á sunnudagsmorgninum skinnum við sömu leið upp fjallið og við höfðum gert daginn áður með stórkostlegt útsýni til suðvestur yfir allan Vatnajökul. En við ætlum að renna okkur aðra línu niður en daginn áður svo rétt áður en við komum á topp fjallsins þurfum við að klöngrast yfir hrygg til að komast í línuna okkar. Þegar við komum yfir hrygginn sjáum við loksins til suð-austurs, yfir tjaldbúðirnar okkar, þó það þyrfti kíki til að finna þær 1000 metrum fyrir neðan okkur, en líka yfir sléttuna sem við ferðuðumst yfir að fjallinu. Okkur til mikils hryllings sjáum við það sem var snævi þakin breiða aðeins tveim dögum áður leit nú út eins og endalaust flæmi áa, lækja, vatna, tjarna og mórauðrar drullu. Yfir þetta vatnsflæmi þurftum við semsagt að komast til baka yfir með allann okkar búnað.

Það er því ekkert annað að gera en að nýta útsýnið sem við höfðum þarna uppi yfir sléttuna til að skoða, taka myndir og leggja á minnið leið sem við teljum mögulega færa til baka að bílnum okkar. Okkur sýnist við hafa fundið krókaleið af þunnum snjólínum sem við gætum þrætt til baka yfir sléttuna af, næstum eins og völundarhús.

Við rennum okkur niður stórkostlega 1000 metra í fallhæð og gleymum öllum áhyggjum rétt á meðan. Pökkum niður tjaldi og búnaði og pössum upp á að skilja við okkur þannig að engin ummerki séu um okkur í fallegri náttúrunni þegar við förum. Festum á okkur brettin og hefjum leiðangurinn til baka. Það tók vægast sagt á taugarnar að ferðast til baka yfir sléttuna á hraða snigils eftir þröngum og þunnum snjólínum sem ennþá lifðu eftir hitabylgju helgarinnar. Það var rennandi vatn allt í kringum okkur, holur í snjónum og ár- og lækjarniður undir fótum okkar nær alla leið og auðvelt að týna leiðinni sem við höfðum púslað saman til baka.

Löngu síðar, rétt fyrir myrkur náum loks að bílnum okkar. Örþreytt en í sæluvímu eftir ævintýri helgarinnar.

Halda lestrinum áfram

Norður Journal

Fjöllin heima

Rúnar Pétur Hjörleifsson er fæddur og uppalinn á Austfjörðum, í návígi við stórbrotnu náttúruna sem þar er að finna og fjöllin sem gnæfa yfir fjörðunum.

Read
Sótt á brattann

Þegar Fanney Þorbjörg lamaðist í alvarlegu skíðaslysi, var ljóst að hún myndi eiga á brattann að sækja í bataferlinu sem fylgdi. Með aðdáunarverðri þrautsegju og jákvæðni hefur Fanney hins vegar náð ótrúlegum bata og stundar í dag fótbolta, skíði og hlaup af kappi.

Klæddu þig vel fyrir fjallið

Skíðaiðkun er ómissandi hluti af vetrinum fyrir marga landsmenn, en dyntótt veðurfar getur þó alltaf sett strik í reikninginn.