Arnaldur & Ólafía

Á skíðum í íslenskri veðráttu

Texti66ºNorth Editorial
MyndbandElli Thor Magnússon
LjósmyndirBenjamin Hardman
Staðsetning63°48'0" N - 19°10'0" W

Þegar byrjar að snjóa fara Íslendingar að dusta rykið af skíðabúnaðinum með von um að skíðasvæðin opni loksins.

Þegar dimmur vetur skellur á eru óhjákvæmilegir fylgifiskar hans hávaðarok, sífelldir hríðarbyljir og hið óútreiknanlega íslenska veður. Á einum degi getur landslagið okkar umbreyst í eins konar klakaveröld þar sem vegir eru lokaðir. Það er einstakt að upplifa þetta. Þrátt fyrir veðrið byrja Íslendingar að dusta rykið af skíðabúnaðinum með von um að snjórinn þýði að skíðasvæðin opni loksins.

Við mæltum okkur mót við Arnald Karl Einarsson og systur hans Ólafíu Elísabetu Einarsdóttur en Arnaldur er eitt af andlitum síðustu vetrarherferðar 66°Norður. Þau systkinin eru bæði verðlaunaðir skíðakappar og því tilvalið að fá þau til þess að segja okkur frá hvernig best sé að skíða í íslensku vetrarhörkunni.

Arnaldur og Ólafía ólust upp við það að glíma við náttúruöflin á skíðasvæðinu í Bláfjöllum.

Bláfjöll eru eitt af fáum skíðasvæðum á Íslandi sem útbúin eru skíðalyftum. Þrátt fyrir að vera smátt í sniðum miðað við skíðasvæði í Evrópu hefur skíðasvæðið í Bláfjöllum verið geysivinsælt meðal Íslendinga allt frá opnun þess á áttunda áratug síðustu aldar.

Arnaldur og Ólafía lærðu á skíði hjá foreldrum sínum sem eru bæði reyndir skíðakennarar í Bláfjöllum. Það má segja að skíðakennslan hafi hafist um leið og systkinin stigu sín fyrstu skref. Fjölskyldan sameinaðist í dálæti á skíðaíþróttinni sem þýddi að farið var í fjallið sama hvernig viðraði. Ekki leið að löngu þar til systkinin voru farin að keppa í skíðaíþróttinni.

Ég hef æft skíði eins lengi og ég man eftir mér. Ég var örugglega meira í Bláfjöllum heldur en heima hjá mér“

Skíðaiðkun á Íslandi getur verið virkilega frábrugðin skíðaiðkun erlendis. Örfáir klukkutímar af dagsbirtu og tíðir byljir gera það að verkum að skíðadagarnir eru bæði fáir og dimmir. Í Bláfjöllum er mest skíðað í gervilýsingu til þess að vinna upp á móti sólarleysinu. Þetta snýst um að gera aðstæður eins skemmtilegar og hægt er við erfið skilyrði. Þá skiptir höfuðmáli að vera vel búinn.

Eina stundina er kannski glampandi sólskin þá næstu er skollinn á hríðarbylur

Bæði Arnaldur og Ólafía hafa verið á verðlaunapalli á skíðamótum á Íslandi. Oft þurftu þau að ferðast til Akureyrar til þess að komast í meiri snjó í Hlíðarfjalli en eins og fólk veit er það talsverður spotti, ekki síst í slæmu veðri.

Arnaldur minnist krefjandi æfingatímabils þar sem þau fóru norður í næstum hverri viku allan veturinn. Ferðalagið norður getur auðveldlega orðið taugatrekkjandi yfir misfærar heiðar í myrkri og hálku. En eins og flest allt á Íslandi þá reddaðist þetta alltaf að lokum.

„Maður lærir það fljótt að það er ekkert verra en að vera illa klæddur. Eina stundina er kannski glampandi sólskin þá næstu er skollinn á hríðarbylur. Þess vegna er svo mikilvægt að vera í rétta fatnaðinum og hafa jafnvel aukalög með til skiptana, ef veður skiptist skjótt í lofti.“

Skoðaðu ráðleggingar okkar um hvernig best er að klæða sig á skíðum.

Hverju skal klæðast

Uppáhaldsflíkur Arnaldar og Ólafíu

Karlar
3 samsetningar
Karlar(2 útgáfur)
Women(2 útgáfur)
Aukahlutir(1 útgáfur)
Ráðleggingar

Kynntu þér einnig

Rétt lagskipting
Skíðafatnaður

Hugsunin að baki því að klæðast nokkrum lögum er sú að nýta sem best mismunandi eiginleika efna. Við tókum saman leiðarvísi að því hvernig á að klæða sig í skíðabrekkunum í vetur.

Lesa
Hugmyndir að útivist
Göngur

Við fengum gönguhópinn Snjódrífurnar sem samanstendur af þaulreyndum fjallakonum til að segja okkur frá hvað það er sem drífur þær áfram, hvað gott er að hafa í huga og hvaða gönguleiðir eru tilvaldar fyrir þá sem eru að koma sér af stað í útivist.