Lífið við jökulrætur

MyndbandBenjamin Hardman og Þorsteinn Roy
LjóðSteinunn Sigurðardóttir
LjósmyndirBenjamin Hardman

Systkinin Þorsteinn Roy og Svanhvít Helga Jóhannsdóttir ólust upp með sérstakan bakgarð, Svínafellsjökul. Þau hafa fylgst með jöklinum minnka og þynnast með árunum sökum loftlagshlýnunar.

Minnkun Svínafellsjökul er sérstaklega varhugaverð þar sem sprunga hefur myndast í Svínafellinu sjálfu sem gæti leitt til aur-, ís og flóðbylgju á láglendinu. Við hjá 66°Norður fengum að heyra upplifun fjölskyldunnar á Svínafelli í Öræfum, sem enn og aftur sýnir mikilvægi jökla á Íslandi. 

Maður áttar sig kannski ekki á því fyrr en miklu seinna að þetta er ekki bara venjulegt. Maður upplifir þetta náttúrulega sem heimili, svo seinna sér maður hvað þetta er kannski súrealískt fyrir mörgum öðrum sem að lifa við allt aðrar aðstæður.

Fólk sem maður kynnist seinna á lífsleiðinni kynnist ekki jöklum fyrr en bara á einhvern allt annan hátt og miklu seinna á ævinni og undir allt öðrum forsendum.

Allir jöklar á Íslandi eru að minnka vegna loftslagshlýnunar og Svínafellsjökull gerir það líka. Hann hefur þynnst mikið á undanförnum árum og áratugum. Það sem er kannski öðruvísi hérna hjá okkur er að það hefur myndast sprunga í fjallinu, semsagt uppi í Svínafellinu, sem uppgötvaðist fyrir nokkrum árum. Það gæti efni úr fjallinu hrunið niður á jökulinn, efni sem nemur mörgum milljónum rúmmetra og gæti valdið aur-, ís- og flóðbylgju sem að kæmi hérna niður á láglendið. Þannig að maður hugsar sig alveg tvisvar um núna áður en maður fer langt inn á jökul.

Ástæða þess að fólk ferðast um jökla hefur breyst mjög mikið á ekki svo löngum tíma. Ég þarf ekkert að fara aftur í tímann lengra en bara um eina kynslóð. Pabbi minn ferðaðist um jökla til að ná í kindur í smalamennsku en árnar á þessu svæði, jökulárnar, eru þannig að það var ekki alltaf hægt að fara yfir ár. Stundum var auðveldara að fara yfir jökulinn þó að það hafi náttúrulega aldrei verið auðvelt.

Í dag þá ferðumst við um jökla til að njóta fegurðar þeirra og sýna öðrum hvað þeir eru fallegir. Ég er að leiðsegja ferðamönnum um jökla og ferðast um jökla á allt öðrum forsendum en kynslóðirnar á undan mér gerðu.

Ég vona að kynslóðirnar sem koma á eftir mér fái að upplifa jökulinn á þennan hátt sem ég fæ að gera, vona að hann verði ennþá, fyrir þau.

Skugginn af Ljósfalli

Eftir Steinunn Sigurðardóttir

“Hann var í sjónmáli frá bænum lengi vel, þessi ómissandi heimamaður.   

Nú er hann horfinn sjónum úr Svínafelli.  

 Sá sem hverfa mun öllum sjónum. 

 Sá sem rennur til hafs eins og hann leggur sig lóðrétt lárétt. 

 Það gæti gerst á lífdögum okkar barna. 

 Þá verður höfuðlaus her fjalla og tinda á Ekki-Íslandi.  

 Þá verða börn og barnabörn í landi án Ljósfjalls. 

 Þar mun Skuggi þess ríkja.” 

Föstudagur fyrir jöklana okkar

NORÐUR Tímarit

Chris Burkard
At Glacier's end

Hinn þekkti ljósmyndari Chris Burkard hefur ástríðu fyrir verndun íslensks hálendis

Lesa
Carbfix
Við breytum CO2 í stein

Það hefur aldrei verið mikilvægara en nú að vísindasamfélagið í heiminum vinni saman að lausnum til að kljást við losun koltvísýrings.


Fylgstu með NORÐUR sögum með því að skrá þig á póstlistann og fylgja okkur á Instagram

Instagram

@66north

Skráðu þig

Póstur