Carbfix

Við breytum koltvíoxíði í stein

Viðtal viðDr. Söndru Ósk Snæbjörnsdóttur
Ljósmyndir og myndböndBenjamin Hardman

Það hefur aldrei verið mikilvægara en nú að vísindasamfélagið í heiminum vinni saman að lausnum til að kljást við losun koltvísýrings

Þær loftslagsbreytingar sem eiga sér stað í heiminum verða sífellt sýnilegri og sérstaklega hjá okkur hér í norðrinu. Það hefur því aldrei verið mikilvægara en nú að vísindasamfélagið í heiminum vinni saman að lausnum til að kljást við losun koltvísýrings. Teymið á bak við íslenska fyrirtækið Carbfix hefur þróað aðferð við að binda CO2  í stein. Við hittum Söndru hjá Carbfix til að fræðast betur um þessa tækni, hvaða áhrif hún getur haft og ekki síst til að fá jákvæðan innblástur um þau verkefni sem eru í gangi er snúa að því að gera umhverfið betra.

Hver er sagan á bakvið Carbfix - hvaðan kemur hugmyndin og hvernig endaði hún á Íslandi?

Steinrenning CO2 (CO2 mineralisation) gegnir stóru hlutverki í náttúrulegu kolefnishringrásinni, en hugmyndin um að nýta þessa aðferð jarðar í baráttunni við hnattræna hlýnun kviknaði á 10. áratug síðustu aldar. 

Árið 2006 hélt einn merkasti loftslagsvísindamaður allra tíma, prófessor Wally Broecker frá Columbia háskóla í New York, erindi á loftslagsráðstefnu á Íslandi um möguleikann á að steinrenna CO2 í basalti á Íslandi. Í kjölfarið fóru hjólin að snúast og Carbfix verkefnið var sett á laggirnar árið 2007 af Orkuveitu Reykjavíkur, Háskóla Íslands, rannsóknarháskólanum í Toulouse og Columbia háskóla– en Orkuveitan hefur leitt verkefnið frá upphafi. 

Hvernig varðst þú partur af verkefninu?

Ég varð gjörsamlega heilluð af þessari hugmynd frá því að ég heyrði fyrst af Carbfix árið 2007. Þá var ég nýflutt heim úr námi og tiltölulega nýbyrjuð í jarðfræði. Ég var stelpan í eldhúspartýunum þetta sumarið að tala um hvernig hægt er að breyta CO2 í stein.

Það var svo árið 2012 sem Carbfix auglýsti eftir doktorsnemum og ég ákvað að sækja um. Ég tók hálfgerða skyndiákvörðun og sendi inn umsókn um það bil korteri áður en umsóknarfrestur rann út í gegnum einhverja hrikalega internettengingu á Ströndunum þar sem ég var á ferðalagi. Ég var ráðin, kláraði doktorsprófið árið 2017 og hef unnið við að breyta CO2 í stein síðan – fyrst hjá Orkuveitu Reykjavíkur og svo sem starfsmaður Carbfix eftir að félagið var stofnað, í kringum verkefnið, nú um áramótin.

Hvernig er ferlið við að binda CO2 í stein?

CO2 er leyst í vatni, rétt eins og í sódavatnstæki, og því svo dælt djúpt ofan í berggrunninn. Þetta sódavatn er þyngra en grunnvatnið og sekkur því fremur en að rísa aftur til yfirborðs. Það streymir um berggrunninn og leysir úr því málma á borð við kalk, magnesíum og járn sem bindast koldíoxíðinu og mynda steindir djúpt í berggrunninu. Berggrunnurinn á Ísland er um 90% basalt, sem er fullkomið berg fyrir þessa tækni. Það inniheldur mikið af þessum málmum, auk þess sem bergið er gropið og sprungið svo vökvinn á greiða leið til að streyma um bergið, hvarfast við það og mynda steindir.

Það er fyrirhugað að stækka við verkefnið á Hellisheiði, getur þú sagt okkur meira um það?

Carbfix tæknin hefur verið hluti af rekstri Hellisheiðarvirkjunar frá 2014 og nú er dælt niður um 12,000 tonnum af CO2 á ári – sem er um þriðjungur losunar frá virkjuninni. Á næstu árum stendur til að stækka lofthreinsistöðina og þá verður megnið af CO2 hreinsað og því dælt niður. Auk þess mun tilraun á niðurdælingu á CO2 frá Nesjavallavirkjun hefjast á næsta ári.

Frá 2017 hefur Carbfix verið í samstarfi við svissneska nýsköpunarfyrirtækið Climework sem þróað hefur búnað til að hreinsa CO2 úr andrúmslofti með nokkurs konar loftsugum. Climeworks hefur rekið tilraunaloftsugu á Hellisheiði og fangað um 50 tonn af CO2 á ári sem Carbfix tekur við, dælir niður og steinrennir. Á næsta ári munu Climeworks reisa loftsuguver við Hellisheiðarvirkjun og fanga allt að 4000 tonn af CO2beint úr andrúmslofti sem Carbfix mun dæla niður og steinrenna. 

Carbfix er líka að undirbúa fleiri verkefni utan Hellisheiðarinnar, og vonandi mun tæknin nýtast sem víðast bæði hér á landi og erlendis í því stóra verkefni sem okkar bíður vegna hamfarahlýnunar.

Orkan á Íslandi er einstök. En er hún nógu umhverfisvæn og eru Íslendingar hlynntir sjálfbærum orkugjöfum?

Ég held stundum að við gerum okkur ekki grein fyrir því hversu heppin við erum með okkar grænu orkugjafa. Á Íslandi eru endurnýjanlegir orkugjafar nánast eingöngu notaðir við húshitun og rafmagnsframleiðslu, og við eigum næga orku til að drífa bílaflotann okkar líka. Þetta setur okkur í mikla forréttindastöðu í loftslagsmálum en flestar þjóðir heims hafa það risastóra verkefni fyrir höndum að hætta bruna á jarðefnaeldsneyti til að knýja þessi kerfi. Þau mál eru þegar leyst hjá okkur og við getum farið að einbeita okkur að því að stemma stigu við losun frá stóriðju, rækta upp landið, endurheimta votlendi og taka skref í átt að kolefnishlutleysi á mun auðveldari hátt en flest önnur lönd. Þess vegna á Ísland að vera leiðandi í loftslagsmálum. Við eigum að nýta okkur þessa gríðarmiklu forgjöf til þess að ryðja brautina. 

Hver er framtíð orku á Íslandi?

Orkan á Íslandi er og verður eftirsótt – enda fleiri og fleiri einstaklingar, fyrirtæki og stofnanir sem gera sér grein fyrir þeim verðmætum sem felast í endurnýjanlegum orkugjöfum.  

Endurnýjanleg orka er líka eitt af stoðum starfsemi Carbfix á Íslandi. Sem dæmi má nefna að ein af forsendum þess að loftsuguver á borð við það sem Climeworks eru að reisa á Hellisheiði sé staðsett á Íslandi er aðgangur að grænni orku – enda myndi það seint borga sig að fanga CO2 úr andrúmslofti með þeirri orku og tilkostnaði sem í því felst, og knýja kerfið með bruna jarðefnaeldsneytis sem losar CO2 aftur út í andrúmsloftið. Þetta gerir Ísland líka að eftirsóttum stað til að þróa þessa tækni áfram. Þá væri hægt að byggja upp CO2 förgunarstöð á Íslandi sem myndi taka við CO2 af stöðum sem eiga þess ekki kost að dæla því niður og steinrenna. CO2 væri þá flutt með tankskipum – og líkt og olía og gas eru flutt um langan veg til orkunýtingar væri hægt að hugsa sér að þessari keðju væri snúið við í þágu baráttunnar við hamfarahlýnun.  

Í mínum huga finnst mér alveg ljóst að endurnýjanleg orka á Íslandi verður enn eftirsóttari á næstu árum, þegar fyrirtæki fara að keppast að því að ná kolefnishlutleysi með öllum ráðum. Það er svo okkar að sjá til þess að hún sé nýtt á sem bestan og skynsamastan hátt.  

Gæti Ísland orðið leiðandi þjóð í grænni orku?

Já, Ísland er nú þegar leiðandi þegar kemur að jarðhitanýtingu og t.d. hafa yfir 700 nemendur frá þróunarlöndum fengið sérhæfða þjálfun í rannsóknum og nýtingu jarðhita síðustu 40 árin í gegnum jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna.  

Að sama skapi vonum við að Carbfix geti orðið ein af þeim aðferðum sem munu vera nýttar til að ná markmiðum Parísarsáttmálans og hemja hamfarahlýnun jarðar.  

Föstudagur fyrir jöklana okkar

Norður tímarit

Chris Burkard
At Glacier's end

Hinn þekkti ljósmyndari Chris Burkard hefur ástríðu fyrir verndun íslensks hálendis

Lesa
Votlendissjóður
25% af allri sölu á vefnum rennur til Votlendissjóðs

Jöklarnir eru stór hluti af Íslandi og við viljum halda því þannig.

Lífið við jökulrætur

Systkinin Þorsteinn Roy og Svanhvít Helga Jóhannsdóttir ólust upp með sérstakan bakgarð, Svínafellsjökul. Þau hafa fylgst með jöklinum minnka og þynnast með árunum sökum loftlagshlýnunar.


Fylgstu með NORÐUR sögum með því að skrá þig á póstlistann og fylgja okkur á Instagram

Instagram

@66north

Skráðu þig á póstlistann

Póstur