Choose your shipping destination to see the products available in your location

Yndisskógur 66°Norður

66°Norður hefur gert samning við Skógræktarfélag Íslands um afnot af landi við Úlfljótsvatn til næstu fjörutíu ára til að byggja upp Yndisskóg 66°Norður. Markmiðið með samstarfinu er að rækta yndisskóg sem bindur kolefni, jafnar vatnsbúskap og eykur frjósemi jarðvegs, búa til skjól og síðast en ekki síst eykur gildi svæðisins til útivistar allan ársins hring.

Helgi Rúnar Óskarsson, forstjóri 66°Norður og Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélagsins undirrituðu samninginn í Úlfljótsvatnskirkju 29. maí 2021, en hann felur í sér að planta um 11.000 trjáplöntum næstu fimm árin. 66°Norður hefur kolefnisjafnað starfsemi sína árið 2019 og 2020 í samstarfi við Kolvið og Klappir og er samstarfið við Skógræktarfélag Íslands til viðbótar við það.

Fyrsta skrefið í átt að yndisskóginum var tekið laugardaginn 29. maí sl., þar sem starfsfólk 66°Norður og fjölskyldur þeirra gróðursettu 100 tré. Næsta gróðursetning mun fara fram haustið 2021 en unnið er eftir ákveðnu skipulagi þannig að útkoman verður fjölbreyttur og fallegur yndisskógur.