Pride

66°Norður

Pride vörulína

Pride vörulínan samanstendur af hettupeysu og stuttermabol. 25% af ágóðanum sem safnast úr sölu Pride línunnar rennur til Samtakanna '78. Styrkurinn verður nýttur í ráðgjöf og fræslu til ungra einstaklinga sem leita til Samtakanna '78.

Ljósmyndir og viðtal: Helgi Ómars


Sigga Ey

Lagahöfundur og söngkona frá Reykjavík.

Hvernig ert þú tengd hinsegin samfélaginu?
Ég er svo heppin að vera móðir trans barns og ég á líka marga vini og fjölskyldumeðlimi undir regnboganum.

Hvernig hefur það auðgað líf þitt að hafa fengið að kynnast hinsegin samfélaginu snemma?
Ég elska fegurð fjölbreytileikans. Hún hefur sannarlega auðgað líf mitt. Fjölbreytileikinn hefur kennt mér að vera víðsýn, að vera meðvituð um eigin dóma, að virða og samþykkja fólk fyrir hvert og hvað það er, þó að það tjái sig öðruvísi en ég. Ég trúi því að í grunninn séum við öll eins, við höfum mismunandi hliðar sem ég leitast við að meta. Það eru þessar ólíku hliðar sem gera okkur einstök og áhugaverð. Ég nýt þess að læra og skynja nýjar hliðar lífsins.

Hvaða merkingu hefur jafnrétti fyrir þig?
Það þýðir að við erum öll mennsk og að við erum öll jöfn, sama hver kynþáttur okkar er, kyn eða félagsleg staða. Við höfum öll sama rétt til að tjá okkur sem við sjálf og til að gera sem mest úr lífi okkar og hæfileikum.

Sástu betur í keppninni hvernig við erum hvergi nærri jafnrétti?
Já, ég gerði það, en ég sá líka að það er margt fallegt að gerast og að það er ástrík vitund í heiminum sem er að vaxa. Flest fólk hafnar ofbeldi og vill lifa frjálst og í friði. Ég kýs að einbeita mér að því að berjast fyrir því sem ég elska og með fólkinu sem ég elska í stað þess að berjast gegn fólki og því sem mér líkar ekki eða mislíkar.

Sem móðir trans barns, hvað finnst þér mikilvægt að aðrir foreldrar hafi í huga?
Að leyfa börnum sínum að tjá sig opinskátt, til að styðja þau og hvetja þau svo að þau geti alist upp við sjálfsöryggi og verið stolt af því hver þau eru. Stuðningur foreldra gerir gæfumuninn fyrir börnin og getur í raun bjargað lífi þeirra.

Ég dáist af einlægni að fólki sem hefur hugrekki til að vera sjálfum sér samkvæmt

Hvað vilt þú sjá í framtíðinni í jafnréttisbaráttunni?
Að við getum horft út fyrir það sem greinir okkur að og fundið hvað við eigum sameiginlegt, hvað gerir okkur eins. Ég trúi því að breytingar eigi sér stað þegar fólk af ólíkum uppruna með ólíkar skoðanir og lífsviðhorf kemur saman til að finna sameiginlegan grundvöll og standa saman í kröfu um jafnrétti og frið á þessari fallegu jörð sem við berum öll ábyrgð á.

Af hverju fannst þér mikilvægt að vekja athygli á réttindum trans fólks í Eurovision?
Þegar barnið mitt kom út sem trans fann ég þörf á að hjálpa til við að ryðja brautina fyrir hann. Ég vildi ekki að fólk sæi hann sem eitthvað sem væri rangt, ég vildi að það sæi fallega, hugrakka og sterka einstaklinginn sem var fær um að vera heiðarlegur og trúr sjálfsmynd sinni. Ég og systur mínar vildum deila þessum vettvangi með trans samfélaginu. Þetta er samfélag sem við sannarlega elskum, dáumst að og virðum. Við vildum gefa því rödd og hjálpa til við að deila mikilvægum skilaboðum. Við vorum með um tvö hundruð milljónir áhorfenda og í gegnum allt ferlið höfðum við gott aðgengi að fjölmiðlum. Við vildum líka láta trans einstaklinga vita að fólk sæi þá, elskaði þá og styddi þá.

Ég dáist af einlægni að fólki sem hefur hugrekki til að vera sjálfum sér samkvæmt. Ég vil lifa í heimi þar sem allt fólk er frjálst og þar sem fjölbreytileikanum er fagnað í stað þess að fordæma hann.

Hvað getum við gert sem samfélag til að taka þátt í þeirri hreyfingu að skapa meiri vitund um réttindi hinsegin fólks?
Við getum ekki breytt öðrum. Við getum aðeins breytt okkur sjálfum. Þess vegna þurfum við stöðugt að vinna í okkur sjálfum. Gæta þess að við komum fram við aðra af ást og góðvild. Halda opnum huga, fræða okkur sjálf og kappkosta að verða opnari og minna dómhörð. Það getur verið erfitt en fólk getur haft áhrif á svo marga á jákvæðan hátt með því að sýna gott fordæmi sjálft.


Pride hettupeysa

25% af ágóðanum sem safnast úr sölu Pride línunnar rennur til Samtakanna '78

Pride stuttermabolur

25% af ágóðanum sem safnast úr sölu Pride línunnar rennur til Samtakanna '78