Heimaey

Handtaska úr gömlum sjófatnaði

„Við ákváðum strax að við vildum framleiða vöru sem væri úr endurnýttu efni og umhverfisvæn [...] Eftir nokkrar vangaveltur var að lokum ákveðið að endurnýta 66°Norður sjógalla af íslenskum sjómönnum.“

TABIK

Vinkonurnar Tinna Björk, Auður, Brynja Rut, Ingunn Íris og Katrín Rós skipa hópinn TABIK og eru allar nemendur í Verslunarskóla Íslands. Endurnýjun og sjálfbærni skiptir þær miklu máli, því þær vilja koma vel fram við jörðina og skilja við hana í góðu ástandi. Þær hönnuðu og framleiddu handtöskur úr gömlum 66°Norður sjófatnaði.

Hvernig kom hugmyndin að töskunum?

Við ákváðum strax að við vildum framleiða einhverja vöru sem væri úr endurnýttu efni og umhverfisvæn. Við öfluðum okkur síðan upplýsinga á netinu og sáum að axlartöskur eru mikið í tísku. Þá vorum við komnar með hugmyndina og þurftum að finna efni til að nota. Eftir nokkrar vangaveltur var að lokum ákveðið að endurnýta 66°Norður sjógalla af íslenskum sjómönnum.

Hvernig fáið þið efnin?

Við fáum sjógalla afhenta frá sjómönnum sem vinna á þremur skipum útgerðarinnar Brim. Við erum mjög þakklátar þeim fyrir að hafa unnið svona vel með okkur. En það eru sjómenn á skipunum Akurey, Viðey og Helgu Maríu.

Hvað finnst ykkur vera sjálfsbærni?

Okkur finnst sjálfbærni snúast um það að við mannfólkið nýtum allar okkar auðlindir skynsamlega og mætum þörfum okkar án þess að það hafi skaðleg áhrif á jörðina og þær kynslóðir sem á eftir okkur koma.

Af hverju skiptir endurnýjun og sjálfbærni ykkur máli?

Endurnýjun og sjálfbærni skiptir okkur máli vegna þess að við viljum koma vel fram við jörðina okkar og skilja við hana í góðu ástandi. Í nútímaneyslusamfélagi er mikið um hraðtísku sem fylgir gríðarleg sóun og það er því töluvert magn af efni og fatnaði sem fer til spillis. Það skiptir okkur miklu máli að við leggjum okkar af mörkum til þess að passa upp á umhverfið.

Af hverju að endurnýta sjógalla frá 66°Norður?

Sjógallarnir frá 66° Norður urðu fyrir valinu vegna sögunnar og gæðunum sem fylgir þeim. Efnið er vatnshelt og mjög slitsterkt sem gerir það að verkum að töskurnar henta við allar íslenskar aðstæður. Gallarnir hafa verið notaðir við fiskvinnslu í marga áratugi hér á landi og því var mikill kostur að við höfðum möguleika á því að fá sjógallana frá Brim. Einnig fannst okkur tilvalið að láta töskurnar heita Heimaey vegna þeirra tengsla sem sjógallarnir hafa við Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Sjóbuxurnar eru mjög áberandi í Herjólfsdal og er það ekki af ástæðulausu. Þar af leiðandi eru töskurnar tilvaldar til þess að taka með sér í dalinn. 

Til að tryggja sér eintak er hægt að hafa samband við TABIK hér