Ívar Pétur Kjartansson

Tónlist að atvinnu, snjóbretti í hlutastarfi

MyndbandElli Thor Magnússon & Daði Jónsson
LjósmyndirElli Thor Magnússon & Daníel Örn Gíslason
TónlistÍvar Pétur Kjartansson

„Það eina sem ég hugsa um eru snjóbretti. Meira að segja á meðan ég er að spila tónlist.“

Snjóbretti hafa ávallt átt hug og hjarta Ívars Péturs Kjartanssonar, sem er einna þekktastur fyrir hlutverk sitt sem trommuleikari hljómsveitarinnar FM Belfast.

„Það eina sem ég hugsa um eru snjóbretti. Meira að segja á meðan ég er að spila tónlist. En snjóbretta hæfileikinn kom kannski ekki alveg eins náttúrulega og tónlistin og því er ég ennþá í tónlistinni og borga reikningana þannig.“

Ívar er fæddur og uppalinn á Seyðisfirði, þar sem búa tæplega 700 manns. Bærinn er þekktur fyrir fjölskrúðugt menningarlíf, en þar er árlega haldin listahátíðin LungA, sem dregur að mikinn mannfjölda. Æskuár Ívars á Seyðisfirði einkenndust af einföldu lífi en stöðugu fjöri. Krakkarnir lifðu við mikið frelsi, þar sem þau voru einfaldlega beðin um að sinna skólaskyldunni, skila sér heim í mat á réttum tíma og restina af tímanum höfðu þau til að eltast við það sem kveikti þeirra áhuga mest. Fyrir Ívar var það tónlistin, hjólabretti á sumrin og snjóbretti á veturna.

„Hafandi búið og starfað í Reykjavík á fullorðinsárum hef ég komist að því hversu mikil forréttindi það voru að alast upp á Seyðisfirði. Frelsið var mikið, sér í lagi innan öruggs ramma fjallanna sem umlykja bæinn. Í minningunni var það í rauninni allt bæjarfélagið sem passaði upp á krakkana, alveg sama hver áhugamál þeirra voru. Svo máltækið„það tekur heilt þorp að ala upp barn” á vel við.“

„Við strákarnir sem vorum mest í tónlist og á brettum fengum stálsmiðjuna til þess að smíðarailfyrir okkur. Svo fengum við lánuð hljóðfæri hjá eldra tónlistarfólki í bænum og fengum lykla hjá Einari Braga skólastjóra að tónlistarskólanum. Við eyðilögðum svo nokkur handrið í bænum, t.d. fyrir utan bæjarskrifstofuna"

„Á veturna fengum við frjálsar hendur í Stafdal, skíðasvæði bæjarins. Gunnsi, ásamt nokkrum vöskum hjálparhellum, smíðaði stökkpalla á troðaranum eftir okkar skipunum og skutlaði okkur upp á topp þegar færi gafst. Með hverju árinu sem ég eldist átta ég mig betur og betur á því að óendanlegir möguleikar leynast í fjöllunum á Seyðisfirði og hvað þá öllu Austurlandi. Fjöllin þar bjóða upp á heimsklassa utanbrautar aðstæður."

„Fyrir rúmum 30 árum var ráðist í gróðursetningarátak í bænum til að bæta skjól í kringum byggðina. Þegar veður og skyggni er slæmt, eins og oft er á Íslandi, þá veita þessi tré mikið skjól og gera það mögulegt að skíða þegar það væri annars ómögulegt. Þegar ég var í leikskóla þá gróðursetti ég meira að segja nokkur tré sjálfur sem hafa nú vaxið úr grasi."

„Allir sem stunda einhverskonar útisvist á Íslandi vita að veðrið getur verið hvernig sem er á hvaða árstíma sem er. Mér finnst því mikilvægast, hvort sem ég er á snjóbretti eða í fjallgöngum að eiga góðan, léttan, vatns- og vindheldan skeljakka og buxur. Ef skelin er í réttu standi, þá getur maður verið undirbúinn fyrir hvaða aðstæður sem er með því að klæða sig rétt undir hana."

„Á köldum vetrardögum í púðursnjó er svo fátt betra en að nota föðurland sem innsta lag, en ég myndi satt að segja ganga í þeim allt árið ef ég gæti. Svo klæðist ég oftast Primaloft buxum og úlpu þar yfir til að veita mér auka einangrun undir skelinni. Þegar vorar og hlýnar í fjöllunum þá þarf hins vegar ekki jafn mikla einangrun og því er ég yfirleitt bara í ullarnærfötunum innanundir skelinni í slíkum aðstæðum."

„Það er gaman að vera úti í öllum veðrum og til þess að geta það þá þarf maður að klæða sig rétt. Þess vegna á ég alltaf til viðbótar eina hlýja og tæknilega dúnúlpu fyrir mestu snjóbilina og kuldann. Ullarpeysa er síðan minn „go-to“ klæðnaður allt árið um kring, hvort sem það er í útilegu, á útihátíð eða í góðriapré skistemningu eftir langan dag í fjallinu."

Hverju skal klæðast

Uppáhalds fatnaður Ívars

Herra
2 samsetningar
Herra(3 útgáfur)
Dömu(3 útgáfur)