Snjódrífurnar þvera Vatnajökul

LjósmyndirSoffía Sigurgeirsdóttir, Heiða Birgisdóttir og Hólmfríður Vala Svavarsdóttir.
TextiVilborg Arna og Brynhildur Ólafs
Staðsetning64°23'59.99"N 16°47'59.99" W

Lífskraftur hefur það að markmiði að safna fé fyrir góðgerðarfélögin Líf og Kraft. Fyrsta skrefið var tekið í júní 2020 þegar ellefu konur þveruðu Vatnajökul, rúmlega 150 km á gönguskíðum. Alls söfnuðust um 6 milljónir króna á meðan göngunni stóð.

Vatnajökull

Þegar Sirrý Ágústsdóttir greindist með leghálskrabbamein í annað sinn árið 2015, var henni sagt að hún ætti í eitt til þrjú ár eftir ólifuð. Hún tók þá ákvörðun að láta krabbameinið ekki stjórna lífi sínu. Lífið væri núna og það þyrfti að njóta þess til hins ítrasta.

Sirrý fann sinn kraft og lífshamingju í fjallgöngum og fékk fljótlega þá hugmynd að slá tvær flugur í einu höggi: Hvetja konur til að upplifa lækningamátt náttúrunnar í gegnum útivist ásamt því að safna fé fyrir góðgerðarfélögin Líf og Kraft. Þannig fæddist átaksverkefnið Lífskraftur sem mun í byrjun maí 2021 standa fyrir hundrað kvenna göngu upp á hæsta fjall landsins, Hvannadalshnúk.

Konurnar kalla sig Snjódrífurnar og eru auk Sirrýjar, leiðangursstjórarnir Vilborg Arna Gissurardóttir og Brynhildur Ólafsdóttir ásamt Önnu Sigríði Arnardóttur, Birnu Bragadóttur, Heiðu Birgisdóttur, Hólmfríði Völu Svavarsdóttur, Huldu Hjálmarsdóttur, Karen Kjartansdóttur, Þórey Vilhjálmsdóttur Proppé og Soffíu S. Sigurgeirsdóttur. Fjórar kvennanna hafa glímt við krabbamein. Allar hafa misst einhvern sér nákominn úr krabbameini.

Þess ber að geta að nokkrum mánuðum eftir leiðangurinn fékk Sirrý þær fregnir að hún væri komin yfir 5 ára krabbameinsmúrinn svokallaða. Hafði þá verið laus við krabbameinið í 5 ár. Heil heilsu. Læknuð.

Snjódrífurnar á leið sinni yfir Vatnajökul þveran

Þetta er sagan af því þegar Snjódrífurnar þveruðu Vatnajökul.
Undirbúningur og svo kom Covid

Við stefndum að brottför í lok mars eða byrjun apríl 2020 og það leit út fyrir að leiðangurskonur yrðu allt að 15 talsins, ef ekkert kæmi upp á. Að ýmsu var að hyggja fyrir þetta ferðalag, ekki síst þar sem um formlegt söfnunarátak var að ræða sem þurfti að skipuleggja vel. Það var til dæmis ljóst frá upphafi að ekki var aðeins nauðsynlegt að hafa hefðbundna bakvarðasveit þegar kom að öryggismálum leiðangursins heldur þurfti líka aðstoðarher til að halda utan um söfnunina, ræða við fjölmiðla og halda öllu gangandi á meðan hópurinn væri á jöklinum.

Getustig var mjög mismunandi meðal leiðangurskvenna og því var ákveðið að hver og ein þyrfti að taka ábyrgð á eigin þjálfun og líkamlegu ásigkomulagi, æfa sig á skíðunum og byggja upp þrek og þol. Síðan myndi hópurinn hittast og hrista sig saman bæði á skipulags- og æfingafundum sem og í formlegum æfingaferðum.

Æfingaferðirnar urðu þó aðeins tvær því í byrjun mars breiddist Kórónuveirufaraldurinn um landið og allt skall í lás. Þrjár leiðangurskvenna smituðust af veirunni og lögðust flatar á meðan aðrar glímdu við margs konar tjón og meiðsli. Allar þurftu tíma til að byggja sig upp á nýjan leik.

Að auki var ljóst að það yrði fullkomlega óábyrgt að halda í svo fjölmennan leiðangur um jökulinn á meðan faraldurinn var í hámarki. Markmið leiðangursins var söfnunarátak og það varð að hafa forgang í allri skipulagningu, hvað sem okkar líðan og væntingum leið. Við mátum það sem svo að þjóðin væri ekki tilbúin að leggja fé í söfnunina í miðjum faraldri og því var ákveðið að fresta leiðangrinum, að minnsta kosti fram í maí, júní og mögulega um eitt ár.

Undir lok sumars 2019 hafði hugmynd Sirrýjar um söfnunarleiðangur kvennahóps yfir Vatnajökul fengið tíma til að vaxa og dafna og var farin að taka á sig nokkuð endanlega mynd.

Fyrstu jöklaskrefin
Dagur 1

Svo var bara allt í einu komið að þessu. Hópurinn var dreifður í útivist víða um landið en safnaðist saman í Hrauneyjum að kvöldi laugardagsins 6. júní og um morguninn 7. júní.

Jökullinn var grófur og skítugur til að byrja með en það gekk vonum framar að þræða snjólínur og áður en varði vorum við komnar í fantafæri og það rokgekk upp jökulinn. Við höfðum fyrirfram ákveðið að reyna að miða við að fara 10 km þennan daginn en svo vel gekk að það var nánast erfitt að stoppa þegar takmarkinu var náð. Við ákváðum þó að vera skynsamar og fara ekki of geyst af stað, enda margir langir dagar framundan.

Hópurinn var snöggur að tjalda og koma sér fyrir, bræða vatn, elda og borða. Allar voru sprækar, glaðar og spenntar, sumar þannig að það tók jafnvel óþarflega langan tíma að sofna þetta kvöld.

Skúrir og skin
Dagur 2

Það var heldur hráslagalegt þegar við vöknuðum næsta dag. Daginn áður var veðrið betra en spár höfðu gert ráð fyrir og við vorum bjartsýnar á að lukkan myndi fylgja okkur áfram. En þennan dag snerust veðurspár á haus. Við ákváðum að bíða af okkur mestu rigninguna enda átti að stytta upp eftir því sem leið á daginn. Rigningin varð þó meiri og stóð lengur yfir en spár höfðu sýnt. Uppstyttan lét á sér standa og kom raunar aldrei.

Dagur 3

Hópurinn hækkaði sig jafnt og stöðugt upp jökulinn og klukkan hálftíu um kvöldið var komið upp í smá skarð sem liggur norðan undir Háubungu. Það er vart hægt að lýsa með orðum tilfinningunni og útsýninu sem þá blasti við. Í suðri komu nú hæstu tindar Skaftafellsfjallanna í ljós ásamt Hrútsfjallstindum og Öræfajöklinum með sinn stolta Hvannadalshnúk. Í norðri og öllu nær voru svo Grímsfjöllin, suðurbarmur Grímsvatnaöskjunnar, þar sem Svínahnúkar vestri og eystri standa hæstir. Öll þessi fjallasýn speglaði sig svo í dýrðlegu sólarlagi þar sem litirnir breyttust stöðugt og fóru allan litaskalann úr gulu í appelsínugult, alla þá bleiku liti sem hægt er að ímynda sér og að lokum yfir í bláa tóna. Eins og gefur að skilja var afar erfitt að skíða áfram í þessari dýrð og myndastoppin urðu nokkuð mörg. Síðasti spölurinn upp í Grímsvatnaskála, sem stendur á Svínahnúk eystri, tók því aðeins lengri tíma en til stóð og skálinn færðist hægt nær. Síðasta brekkan er stutt en mjög brött og ætlaði engan enda að taka. Það voru því þreyttar en afar hamingjusamar skíðakonur sem skriðu inn í skála um kl. 1 eftir miðnætti.

Dagur 4

Hópurinn vaknaði um hádegisbilið í sólskinsblíðu og brakandi hita. Enn var eitthvað af búnaðinum rakt eftir rigninguna tveimur dögum áður og allt dótið var drifið út í sólskinið. Fljótlega var ákveðið að taka allan daginn í leti og kósíheit og gera það án nokkurrar eftirsjár eða samviskubits yfir því að verið væri eyða svo góðum degi í kyrrstöðu. Þetta var góð ákvörðun. Það sveif eitthvað guðlegt yfir Grímsvötnum þennan dag og við vorum allar að springa úr þakklæti og gleði yfir vinskapnum, veðrinu, útsýninu, fegurðinni og lífinu. Einn fylgifiskur góðs veðurs á Grímsfjalli er að loftþrýstingur verður þá oft of hár til að hægt sé að koma hinu goðsagnakennda Grímsvatnagufubaði almennilega í gang. Við urðum því að láta okkur nægja sólbað í þetta sinn og breiddum úr okkur á móbergsklöppunum fyrir neðan skálann með kakó og kruðerí.

Um miðjan dag fréttum við að Vísindaráð Almannavarna væri á fundi m.a. til að ræða aukið útstreymi brennisteins í Grímsvötnum sem benti til að hlaup og/eða gos gæti verið yfirvofandi. Þyrla Landhelgisgæslunnar flaug skömmu síðar yfir í skoðunarferð og við heyrðum í Magnúsi Tuma Guðmundssyni, jarðfræðingi sem var um borð. Engin ástæða þótti þó til að við flýttum okkur í burtu af svæðinu og við vorum pollrólegar enda greinilegt að vel var fylgst með bæði ástandinu og okkur. Því er þó ekki að neita að þessi staða jók enn á eftirminnileika þessa dags

Um miðjan dag fréttum við að Vísindaráð Almannavarna væri á fundi m.a. til að ræða aukið útstreymi brennisteins í Grímsvötnum sem benti til að hlaup og/eða gos gæti verið yfirvofandi. Þyrla Landhelgisgæslunnar flaug skömmu síðar yfir í skoðunarferð og við heyrðum í Magnúsi Tuma Guðmundssyni, jarðfræðingi sem var um borð. Engin ástæða þótti þó til að við flýttum okkur í burtu af svæðinu og við vorum pollrólegar enda greinilegt að vel var fylgst með bæði ástandinu og okkur. Því er þó ekki að neita að þessi staða jók enn á eftirminnileika þessa dags

Dagur 5

Fyrripart þessa dags var færið dásamlegt, hart og gott. Kílómetrarnir flugu undan skíðunum og Hvannadalshnúkur færðist hægt en örugglega hjá á hægri hönd. Eftir um 3 klst. göngu pípti í Tetrastöðinni. Það var Neyðarlínan að láta okkur vita að við værum nú komnar út af skilgreindu hættusvæði, þ.e. mögulegu úrrennslissvæði Grímsvatnahlaups.

Eftir því sem leið á daginn, náði sólbráðin yfirtökunum og efsta snjólagið mýktist og bráðnaði. Það þýðir að skíðin sökkva neðar og það verður erfiðara að troða spor og draga sleða á eftir sér. Skipulag göngunnar alla leiðina yfir jökulinn var þannig að Vilborg Arna og Brynhildur skiptust á að leiða hópinn, oftast í u.þ.b. 5 km í einu, áður en tekin var nestis- og pissupása.

Dagur 6

Þetta varð dagur Kverkfjalla sem núna komu í ljós á vinstri hönd og færðust framhjá og aftur fyrir hópinn eftir því sem leið á þennan langa vinnudag. Það var hvassara og kaldara en undangengna daga. Stundum var himininn bjartur og blár en á löngum köflum rann allt saman í eitt hvítt tóm, svo að það þurfti að vera með einbeitinguna í lagi og augun límd á GPS tækinu.

Það er með ólíkindum hvað hægt er að missa áttirnar hratt í svona hvítablindu þegar allt rennur saman í eina órofa heild. Gott ráð, sérstaklega ef margir ganga í röð, er að fylgjast vel með línunni fyrir aftan sig. Betri mælingu á það hvort verið er að ganga í beina línu fæst ekki. Ef þú sérð bara í næsta mann, þá er gengið beint og stefnan er í góðu lagi. En ef þú horfir til dæmis á síðustu tvo skíðamennina á hlið, þá hefur óvart verið tekin 90° beygja!

Dagur 7

Þennan dag var ákveðið að skíða grimmt og setja upp tjöld undir Goðahnjúkunum að vestanverðu. Útsýnið var frábært. Herðubreið og Snæfell blöstu við okkur allan daginn og af og til glitti í Goðahnjúkana framundan, sem þó voru að mestu huldir skýjum.

Þetta var hins vegar erfiður dagur fyrir margar. Færið var sýnu verra en síðustu daga. Að auki vorum við nú búnar að vera á ferðalagi í viku og ýmis konar fótatjón fóru að láta á sér kræla. Soffía varð verri og verri í hnénu eftir því sem á leið og við bættust ljót hælsæri sem líka byrjuðu að hrjá Heiðu sem kallar ekki allt ömmu sína. Þá fékk Sirrý verk í hásinina og varð draghölt undir lok dags.

Þrátt fyrir allt var engin uppgjöf og þennan dag var skíðað lengst allra daganna eða tæplega 30 km. Ofuríþróttaálfurinn Hólmfríður Vala skíðaði þó örugglega hátt í 40 km þar sem hún var á stöðugu ferðalagi upp og niður eftir skíðaröðinni að kanna með heilsu og ástand allra, peppa og taka myndir.

Það var bót í máli að veðrið var dásamlegt og það var tilbreyting að tjalda undir fjalllendi eftir þramm yfir sléttan jökul síðustu daga. Gert var að sárum leiðangursmanna, skorið á blöðrur, hné og ökklar bundnir, gulur gröftur frelsaður út í dagsljósið og skipt um umbúðir. Allt á meðan gleðipinninn Anna Sigga blés sápukúlur í bleiku sólarlaginu.

Við höfðum haldið því opnu hvar við myndum enda leiðangurinn og vildum láta það ráðast af veðri og ástandi leiðangursmanna. Eftir dálitla rekistefnu var ljóst að þrátt fyrir ýmis konar tjón þá treystu allar sér í að skíða lengstu mögulegu línu á jöklinum sjálfum. Við ákváðum því að ljúka ferðalaginu austur af jöklinum, niður í skálann í Geldingafelli og þaðan til Egilsstaða frekar en styttri leið suður af jöklinum, niður í Hoffellsdal og til Hafnar í Hornafirði. Þá var bara að krossa putta og vona að veðurguðirnir myndu blessa þessi áform.

Takmarkinu náð
Dagur: 8

Þegar haldið var af stað þennan lokadag á jöklinum var veðurútlitið þannig að það gat brugðið til beggja vona. Smá skýjahula lá efst á Goðahnjúkunum og framundan var löng og erfið hækkun. Við settum skinn undir skíðin, hausinn undir og svo var ráðist til uppgöngu. Þegar upp var komið var morgunljóst að Snjódrífur nutu blessunar og velvildar æðri máttarvalda. Veðrið var himneskt, hvergi ský að sjá og útsýni til allra átta.

Goðheimar, pínulítill skáli Jöklarannsóknafélagsins stendur einmitt þar sem við komum upp. Það sást þó aðeins glitta í annað þakskegg skálans sem að öðru leyti var algerlega á kafi í snjó. Þarna var fullkomið símasamband og við hringdum allar heim til að láta vita af stöðu mála og hvenær væri von á okkur til byggða. Á Goðahnjúkasvæðinu er að finna alls 14 af 100 hæstu tindum Íslands og það var nánast líkamlega erfitt að slíta augun af útsýninu til að hefja niðurferðina. En nú hafði öll þreyta gufað upp og það varð allt í einu bara pínulítið formsatriði að klára þá 15 km sem eftir voru. Síðasti spölurinn niður af jöklinum var ólýsanlegur. Brekkan var fullkomin, hvorki of brött né of flöt og við runnum niður, syngjandi, grátandi og gargandi af gleði.

Þetta kvöld galdraði Sirrý fram dásamlegan kvöldverð úr öllum matarafgöngum hópsins. Alls konar góðir matarbitar höfðu leynst í innstu afkimum farangursins. Ostur hér, döðlur þar, paprika og appelsínur komu nú upp úr dúrnum og tilbreytingin var kærkomin eftir þurrmatinn síðustu daga. Það var þó helst morgunmaturinn sem við vorum allar orðnar fullsaddar á og áttum erfiðara og erfiðara með að pína í okkur. Haframjöl blandað með kakódufti, hnetum og rúsínum vandist hreint ekki vel marga daga í röð. Annars var merkilegt hvað matarlöngunin reyndist mismunandi á milli kvenna. Á meðan sumar fengu ekki nóg af smjöri í kakóið, þurrmatinn og jafnvel eintómt, þá voru aðrar sem lifðu mest á sætindum, súkkulaði og gúmmíbjörnum.

Á svona ferðalögum eyða tjaldfélagar óneitanlega mestum tíma saman en þetta kvöld á Geldingafelli náði hópurinn í fyrsta sinn frá Grímsfjalli að sitja allur saman og spjalla. Við áttum þarna mikilvæga stund, deildum upplifun okkar af leiðangrinum, töluðum um persónulega hápunkta og lágpunkta, sigra og ósigra og hvað við höfðum lært. Á meðan spilaði náttúran undir og blessaði okkur með enn einu bleiku sólarlaginu.

Dagur 9:

Það spáði úrkomu og miklu hvassviðri þennan dag og fyrirfram vorum við ekki vissar um hvernig það gengi að skíða úr skálanum og niður á veg þar sem hægt yrði að ná í okkur.

Þegar til kom var úrkoman lítil sem enginn og að auki fengum við rokið beint í bakið og gátum á löngum köflum bara breitt út hendurnar og látið vindinn feykja okkur áfram. Svo heppilega vildi líka til að þrátt fyrir að komið væri fram í miðjan júní, var ennþá þó nokkur snjór á svæðinu. Við þurftum því hvorki að taka af okkur skíðin né bera púlkurnar og gátum þrætt snjólínur alla leið niður í bílinn sem flutti okkur til Egilsstaða.

Við áttum von á því að vera frekar búnar á því í lok leiðangursins, en þegar til kom reyndist svo ekki vera. Á þessum tímapunkti var hópurinn sammála um að ferðalagið hefði síst verið of langt og ef ekki hefði verið fyrir fótamein hér og hvar, þá hefðu allar verið tilbúnar til að halda áfram og ganga jafnvel sömu leið til baka! Sumar höfðu léttst um einhver kíló en aðallega var hópurinn bara orðinn stæltari og sterkari. Auðvitað var þó heilmikil uppsöfnuð líkamleg þreyta til staðar en svoleiðis þreyta kemur oft ekki í ljós alveg strax, ekki fyrr en nokkrum dögum síðar, þegar gleðin og adrenalínið yfir því að búið sé að ná takmarkinu minnkar.

Hvað er svo það fyrsta sem konur gera eftir 8 langa daga á jökli? Eins skrítið og það nú hljómar þá var tregða í hópnum að drífa sig í sturtu og skipta um föt. Við vorum allar helsáttar við að sitja bara sem lengst á ullarbrókinni og spjalla. Það eina sem skyggði á gleðina var að sökum varabruna, þá var afar sársaukafullt að drekka kampavínið sem við höfðum hlakkað svo lengi til að komast í. 

Ekki að það hafi stoppað okkur…

Næst á dagskrá hjá Snjódrífunum

Þann 1. maí mun Sirrý og Snjódrífurnar ganga í krafti ríflega 100 kvenna á Hvannadalshnúk, ,,Kvennadalshnúk". Markmiðið með þessari kvennagöngu er að safna áheitum fyrir bættum aðbúnaði og upplifun sjúklinga með krabbamein og blóðsjúkdóma á nýrri lyflækningadeild Landspítalans. Á þessari nýju deild munu kraftar og stuðningur styrktarfélaganna Lífs og Krafts skipta sköpum en félögin eru Sirrý mjög kær en hún hefur farið í gegnum krabbameinsmeðferðir á spítalanum og þekkir því þörfina vel. Snjódrífurnar náðu að safna 6 milljónum króna með göngunni yfir Vatnajökul þveran og nú heldur söfnunin áfram til uppbyggingu nýrrar deildar. 

Gangan upp á hæsta tind landsins tekur alls 14-16 klukkutíma og er því ein lengsta dagleið og hækkun í fjallgöngu í Evrópu. Þátttakendur eru margar að ganga fyrir ástvin sem hefur fengið krabbamein og jafnframt eru konur í göngunni sem hafa fengið krabbamein. Hluti þátttökugjalds göngukvenna rennur einnig til söfnunarinnar. Uppselt er í gönguna en það er hægt að skrá sig á biðlista á www.lifskraftur.is 

Hægt er að styðja við Lífskraft með því að leggja inn á reikning 1161-26-9900, kt. 501219-0290, eða með AUR appinu í síma 789 4010. Við munum janframt virkja SMS söfnun þegar nær dregur.

Hverju skal klæðast þegar ferðast er yfir Vatnajökul

Snjódrífurnar

Konur
2 samsetningar
Konur(5 útgáfur)
Karlar(5 útgáfur)