Védís og Halla

Skessusystur

Myndataka og ljósmyndirHaukur Sigurðsson og Þorsteinn Roy
Handrit, klipping og textiHalla Mía
Staðsetning65.2830° N, 15.5717° V

„Skessugarður er náttúruundur á Jökuldalsheiði, grjót, eintómt stórgrýti, sem hefur raðast í vegg. Þjóðsagan er náttúrlega langeinfaldasta skýringin á tilurð þessa garðs, að þetta séu skessulandamerki,“ segir Halla.

Skessugarður

„Mér fannst freistandi að setja okkur háleit markmið og feta í fótspor skessanna sem reistu Skessugarð. Mætast á miðri leið á veggnum frekar en að reisa vegginn,“ segir Védís Ólafsdóttir en þær Halla Ólafsdóttir eru tvíburasystur sem valið hafa að fara sínar eigin leiðir.

„Skessugarður er náttúruundur á Jökuldalsheiði, grjót, eintómt stórgrýti, sem hefur raðast í vegg. Þjóðsagan er náttúrlega langeinfaldasta skýringin á tilurð þessa garðs, að þetta séu skessulandamerki,“ segir Halla.

Til eru nokkrar útgáfur af þjóðsögunni um það hvernig tvær skessur reistu þessi landamerki á Jökuldalsheiði. Samkvæmt einni þeirra bjó önnur skessan niðri við sjó og hin inni við jökul. Einu sinni þegar þær hittust fóru þær að þræta um landamerki. Þær voru sammála um að þær ættu landið til móts við hvor aðra en ekki hvar mörkin lægju. Þær sammæltust því um að á sama degi um sama leyti myndu þær stika til móts til hvor aðra og þar sem þær mættust reistu þær Skessugarð.

Þegar Védís heyrði þjóðsöguna um Skessugarð á Jökuldalsheiði kviknaði hugmynd. „Skessurnar sem eru að deila um landamerki, - ég tengi við þær,“ segir Védís, „Ég er eineggja tvíburi, en hef aldrei verið sérstaklega góð í því að vera eineggja tvíburi. Þannig að ég hef ekki verið sátt við að deila sama svæðinu með tvíburasystur minni og við höfum ítrekað reynt að búa í sitthvoru landinu eða sitthvorum landshlutanum. – En það er kannski kominn tími til að taka það í sátt að vera eineggja tvíburi,“ segir Védís, „og mætast á veggnum.“

Ég er eineggja tvíburi, en hef aldrei verið sérstaklega góð í því að vera eineggja tvíburi.

Sumir kaflar voru eftir vegum og slóðum en aðrir yfir hóla og hæðir

Vegalengdin frá Skessugarði inn að Brúarjökli til suðurs og frá Skessugarði norður að sjó í Vopnafirði er mjög svipuð, 70 til 75 kílómetrar. Halla og Védís ákváðu því að reima á sig hlaupaskóna og hlaupa sömu leið og þær áætla að skessurnar hafi stikað í þjóðsögunni - til móts við hvor aðra.

Það var í lok sumars, rétt fyrir klukkan fimm að morgni, sem Halla hristi úr sér morgunhrollinn við Brúarjökul, pakkaði saman tjaldinu, leitaði uppi illsjáanlega vegslóða og hljóp af stað til móts við Védísi, sem lagði af stað um svipað leyti frá Vopnafirði.

Védís kvaddi kvakandi bjargfugla við Vopnafjörð og hljóp af stað eftir sveitaveginum milli bæja og túna með kaupstaðinn Vopnafjörð að baki. Fátt var komið á fætur, hvorki fólk né dýr, stöku kind jarmaði og fuglar sungu með þegar sólin teygði úr sér og reis upp yfir fjöllin þennan fallega síðsumarsdag. Halla hélt hins vegar af stað í þögninni í víðáttu hálendisins norðan Vatnajökuls en Snæfell og Herðubreið heilsuðu úr fjarska.

Það voru langar dagleiðir framundan. „Sumir kaflar voru eftir vegum og slóðum en aðrir yfir hóla og hæðir og við óðum margar mýrar og ár,“ segir Halla. Systurnar höfðu sammælst um að flýta sér ekki um of heldur njóta leiðarinnar enda mikil fjölbreytni frá jökli til sjávar; heitar laugar, fallega grónir dalir, víðátta, melar og fjalladýrð, heiðarbýli, fuglar – og meira að segja hreindýr. Enda, ólíkt skessunum, voru systurnar ekki í kappi við tímann og sólarljósið, því nægur tími er á löngum, íslenskum sumardögum.

Við eigum betra samband þegar við förum sitthvora leiðina og mætumst svo og segjum hvor annarri frá

Védís hljóp inn Vopnafjörð og meðfram Hofsá þangað til hún tók stefnuna upp á Tunguheiði og svo Jökuldalsheiði. Hún stikaði yfir móa, mela og mýrar - á milli fífutjarna og blikandi vatna. Gæsir voru farnar að búa sig undir ferðalög til heitu landanna og himbrimi kvakaði á fallegu heiðarvatni. Víða hoppuðu frískandi lækir og gómsæt aðalbláber leyndust í notalegum lautum. Áður bjó fólk á þessum slóðum, nú eru bara eftir tóftir heiðarbýlanna með gestabókum fyrir vegfarendur.

„Hvað ertu kominn langt?,“ spyr Védís Höllu í síma. „50 eða 51 kílómetra,“ segir Halla. „Ég er komin 52!“ svarar Védís. – „Vá, hvað við erum miklir tvíburar,“ segir Halla.

Áfram hljóp Halla í auðninni norðan Vatnajökuls en skaut sér svo niður í fallega gróinn Laugarvalladal, þar sem hún gat meira að segja baðað sig í heitri laug. Og áfram hljóp hún, aftur og aftur, yfir ána í dalnum þar til hún hljóp dalinn á enda og þá var veðrið farið að versna.

„Það var skrítin tilfinning að vera búin að hlaupa meira en fimmtíu kílómetra, það lengsta sem ég hafði áður hlaupið, en vita líka að ég væri rétt að byrja á hálfmaraþoninu sem ég ætti eftir,“ segir Halla.

„Ég hafði áhyggjur af því að Halla væri að fara lengri leið en ég og erfiðari leið,“ segir Védís,  - „Við höfðum skoðað meirihluta leiðarinnar áður en við hlupum af stað og eini ókannaði kaflinn var síðasti hlutinn af leiðinni hennar Höllu.“ – „En það lýsir líka okkur, maður vill alltaf systkini sínu, eða þeim sem maður er náinn, allt hið besta,“ segir Védís. Og leiðin hennar Höllu reyndist nokkrum kílómetrum lengri en leiðin hennar Védísar og með seinförnum, djúpum mýrum. Svo að Halla átti enn nokkra kílómetra eftir þegar Védís nálgaðist Skessugarð úr norðri. „En ég treysti á það,“ segir Védís, „að hún vissi að þótt ég kæmi á undan, þá biði ég eftir henni,“ – sem hún gerði. Og loksins, eftir 75 kílómetra hlaup sá Védís Höllu nálgast Skessugarð úr suðri.

Það voru lúnir fætur sem príluðu upp á Skessugarð eftir heilan dag á hlaupum - en þeim mun kærkomnari endurfundir. „Þótt það væri stundum svolítið einmanalegt að fara þessa löngu leið,“ segir Halla, „þá fannst mér, eftir allt saman, betra að við færum sitthvora leiðina heldur en þá sömu. – Það er nákvæmlega það sem hefur virkað fyrir okkar líf. - Við eigum betra samband þegar við förum sitthvora leiðina og mætumst svo og segjum hvor annarri frá.“

Skessugarður

Hverju skal klæðast