Bike Farm

Reiðhjólabændur á bænum Mörtungu

Texti og myndbandÞorsteinn Roy
LjósmyndirÞráinn Kolbeinsson

„Upplifunin sem við erum að reyna að búa til hérna er bara þessi sveitastemning, að koma heim á bæ, njóta náttúrunnar, punktur. Það er ekki á mörgum stöðum þar sem maður getur komið heim á sveitabæi í dag þar sem bændur eru búnir að opna á landið sitt fyrir aðra til að njóta. Við viljum fá fólk til okkar í sveitasæluna” segir Mummi.

Þau Mummi og Rannveig búa ásamt börnum sínum tveimur, Steini Kaldbak og Heiðu Guðbjörgu á bænum Mörtungu 2 í Vestur-Skaftafellssýslu. Þau reka sauðfjárbú og ferðaþjónustu með fjallahjólaferðir. Rannveig er fædd og uppalin á bóndabænum en þau Mummi taka við sauðfjárbúinu af foreldrum Rannveigar þar sem fjölskyldan hennar hefur búið á jörðinni í fimm ættliði.

„Ég var búin að búa í Reykjavík í mörg ár og orðin svolítið þreytt á því. En svo fékk ég boð um vinnu á Klaustri og ákvað að slá til. Svo leiddi eitt af öðru og við tókum við sauðfjárbúinu af foreldrum mínum. Mummi er náttúrulega uppalinn í Reykjavík þannig að þetta var aðeins öðruvísi fyrir hann en mig af því að ég þekkti þetta. En svo erum við bara rosalega ánægð hérna. Hér er fullt af tækifærum og rosalega gott að búa“, segir Rannveig.

Að sögn Mumma var það auðveld ákvörðun að flytjast með Rannveigu í sveitina. 

„Lífstíllinn var svo heillandi, þessi mikla ástríða fyrir kindinni eins og ég fann fyrir hjá Rannveigu og fjölskyldu hennar. Ástríðan er svo svakaleg að alla daga, allt árið eru kindur í forgrunni, það kemst ekkert annað að. Það er það sem dró mig hingað og heillaði mig, þessi ástríðu lífsstíll. Eru ekki allir að leita að honum?“, spyr Mummi

Mummi ólst að mestu leyti upp í Seljahverfinu í Breiðholtinu en var þó í sveit á Klifmýri á Skarðsströnd á sínum yngri árum. 

„Minn uppruni er í Breiðholtinu og ég man mest eftir mér þaðan. Þar steig ég mín fyrstu skref í hjólamennsku en síðan hafði hjólamennskan svolítið dottið niður hjá mér þangað til ég kom aftur í sveitina. Það var svo gott að geta samtvinnað búskapinn og hjólamennskuna. Ég kom austur af því að ég heillaðist af búskapnum og ástríðunni fyrir honum en mig vantaði samt að halda minni ástríðu við, sem eru hjólin“, segir Mummi.

Ástríðan er svo svakaleg að alla daga, allt árið eru kindur í forgrunni.

Fjallahjólaferðir

Hugmyndin af því að byrja með fjallahjólaferðir í sveitinni kviknaði í smalamennsku eitt haustið

Mummi og Rannveig voru ný flutt austur og voru að elta kindur eftir ævafornum kindagötum í landi þeirra í Mörtungu 2. 

„Mummi sér bara hjólaslóða út um allt. Hann vildi bara fara að hjóla allar kindagöturnar og ég hélt að það væri ekkert hægt. En svo byrjaði Mummi að hjóla og ég fór með honum og við sáum að það var eitthvað sérstakt sem við höfðum og við byrjuðum svo að vinna út frá því, að laga göturnar til þannig að það væri hægt að hjóla á þeim“, segir Rannveig. 

Hægt og rólega hefur aðstaðan svo byggst upp í Mörtungu 2. Þau hafa gert upp gamla hlöðu og sett upp gistingu í fjallaskálastemningu fyrir fólk sem kemur í heimsókn. Þau hafa komið upp sturtuaðstöðu, saunaklefa og köldum potti í hlöðunni sem kemur sér vel fyrir gesti eftir hjólaferð.

„Það myndast rosalega skemmtileg stemning í hlöðunni. Fólk er svo frjálst í sveitinni. Maður þarft ekki annað en að stíga eitt skref út fyrir og þá er maður kominn út í allt, eða ekki neitt, hvernig sem maður lítur á það, bara út í náttúruna. Hjólið tekur mann á svo magnaða staði eins og í bakgarðinum hjá okkur, þetta er allt troðfullt af gljúfrum, fossum og mosagrónu landslagi.

Það er auðvitað stærsti parturinn af þessu öllu saman, að njóta náttúrunnar. Það er svo fallegt að geta gleymt sér á hjólinu, maður kemst í ákveðinn barndóm. Maður getur ekki verið að hugsa um neitt annað á meðan og þar með verður þetta hugleiðsla á sama tíma og hreyfing. Leiðirnar eru margar hverjar krefjandi og koma fólki út fyrir þægindarammann. Það er ótrúlega gaman því þá kynnist maður því miklu betur og fólki líður eins og það sé búið að sigra heiminn, eða sigra sjálft sig. Það er þessi endorfín tilfinning þegar fólk kemur heim á bæ eftir ferð og er að njóta sem er svo geggjuð. Það myndast sjálfkrafa einhver stemning heima á hlaði. Það fara allir brosandi héðan“, segir Mummi. 

Við erum að passa þetta land fyrir komandi kynslóðir.

Mörtungujörðin er um 11.000 hektarar. Þó að Mummi og Rannveig eigi þessa stóru jörð líta þau ekki þannig á það.

„Við erum bara að passa þetta land fyrir komandi kynslóðir, það er okkar skylda. Allir eru velkomnir í heimsókn. Við getum ekki eignað okkur eitthvað sem hefur verið hérna miklu lengur en við, segir Rannveig. 

„Við höfum fengið tilboð í að láta virkja ána hjá okkur og að setja vindmyllur upp á heiði. Þá finnur maður að maður eigi þetta land af því að maður getur sagt nei við þessu. Það er fegurðin við þetta, þá líður manni eins og maður eigi landið, en á þann góða hátt held ég”, segir Mummi. 

„Við reynum að raska sem minnstu, að hjólaslóðarnir séu sjálfbærir og náttúrulegir. Kindagöturnar eru þannig að þær eru sjálfbærar, þær halda sér vel af því að kindurnar nenna ekki að labba í drullu og mýrum. Það er frábært að hjóla á þessum stígum af því að þær hafa verið að þjappa þá í þúsund ár”, segir Rannveig.

Fjallahjólin og sauðfjárbúskapurinn fer augljóslega vel saman. Þau nota gamla  kindastíga sem sauðkindin hefur þrammað á í gegnum aldirnar til þess að hjóla á. Í dag telur sauðfjárbúið um 200 kindur. 

„Mér finnst sauðfjárbúskapur vera ómissandi partur af lífinu, hefðin og stemningin í kringum sauðkindina. Smalamennska, sauðburður og réttir, þetta er svo gaman. Fyrir mér finnst mér kindur vera skemmtileg dýr og mér finnst gaman af öllu í kringum þær, þetta er vinna sem gefur mér mikla ánægju. Að vera sauðfjárbóndi er krefjandi og gefandi. Krefjandi á þann hátt að það er mikil viðvera en á hinn veginn er þetta líka frelsi, að vera sinn eigin herra”, segir Rannveig. 

Ásamt því að vera með sauðfé eru þau með þrjá hesta, nokkrar hænur, hund og kött. 

“Ég held að allir krakkar hafi gott af því að alast upp með dýrum. Það er bara yndislegt að ala börn upp í sveit og ég mæli alveg með því. Þau læra á dýrin og að umgangast þau og fá bara að vera frjáls. Þetta er mikið frelsi fyrir okkur Mumma líka. Maður getur stokkið upp á fjall í bakgarðinum þegar manni hentar, maður hefur stöðugan aðgang að útivist. Þetta er besti parturinn við að búa í sveit, allt þetta frelsi sem við höfum og endalausar hugmyndir sem fæðast. Það er bara spurning um að koma þeim öllum í verk”, segir Rannveig. 

Mummi tekur í sama streng. “Að ala upp börn í sveit er það sem við heilluðumst að þegar við fluttum hingað. Að þau geti stokkið sjálf út að leika sér, það finnst mér rosalega heillandi. Ég var í sveit sjálfur þegar ég var yngri og mig langaði svo til þess að mín börn myndu finna þessa frelsistilfinningu. Það er stór partur af því að við erum hérna. Það besta við að búa í sveit fyrir mér er að vera sinn eigin herra fyrst og fremst og þetta risa frelsi sem fylgir því”.

Að ala upp börn í sveit er það sem við heilluðumst að þegar við fluttum hingað.

Klæddu þig vel

Fatnaður fjölskyldunnar