Benjamin Hardman

Ísland á einum degi

Texti og ljósmyndirBenjamin Hardman
Staðsetning63°58'58.80" N -19°04'1.20" W

Benjamin Hardman setti sér það markmið síðasta sumar um að ganga og skrásetja alla leiðina yfir Laugaveginn í einu lagi með það að markmiði að upplifa allar hliðar landslagsins og aðstæðna fótgangandi og á innan við sólarhring.

Laugavegurinn er ein vinsælasta gönguleið í heimi og er venjulega gengin á nokkrum dögum en leiðin er 55 kílómetra löng og liggur yfir hálendi Íslands. Gönguleiðin er fjölbreytt með síbreytilegu landslagi. Ekki nóg með að á leiðinni sjáist allar mögulegar gerðir hálendis heldur fá göngumenn hið vel þekkta, óútreiknanlega íslenska veðurfar beint í æð.

Ég setti mér markmið síðasta sumar um að ganga og skrásetja alla leiðina í einu lagi með það að markmiði að upplifa allar hliðar landslagsins og aðstæðna fótgangandi og á innan við sólarhring. Ég hafði einungis farið um svæðið á jeppa og það var spennandi tilhugsun að upplifa gönguleiðina í fyrsta skipti á þennan hátt þar sem mörg svæðin sjást einungis ef maður er á tveimur jafnfljótum.

Ég vaknaði klukkan korter fyrir fjögur í skálanum í Landmannalaugum við rigningu og rok sem markaði upphafið að þrekraun sem myndi aldrei líða mér úr minni.

Tjaldstæðið

Þar sem ég vissi að óveðrið skylli á eftir hádegi varð ég að hafa hraðar hendur til þess að komast af stað á undan veðrinu. Þar sem ég var aleinn á ferð gekk ég úr skugga um það kvöldið áður að skálaverðinum væri kunnugt um ferðalagið og pakkaði GPS-staðsetningartæki svo ég gæti fylgt gönguleiðinni í lélegu skyggni. Undirbúningur skiptir höfuðmáli fyrir öruggt og vel heppnað ferðalag.

Hálftíma eftir að ég vaknaði var ég lagður af stað og þræddi úfna hraunbreiðu Laugahrauns í léttum rigningarúða áður en ég staðnæmdist augnablik á útsýnisstað við Brennisteinsöldu og horfði yfir að tjaldbúðunum. Það var á þessari stundu sem skyggnið tók að versna, miklu hraðar en ég hafði gert mér í hugarlund og mér varð ljóst að þetta yrði erfiður dagur. Ég snaraði mér í ytri Goretex-skelina og arkaði áfram.

Þaðan lá leiðin upp að Hrafntinnuskeri. Það svæði hefur alltaf verið í uppáhaldi; þakið glitrandi hrafntinnubrotum og rjúkandi hverum.

Það var afar kærkomið að sjá ljósið í Höskuldsskála eftir tveggja klukkustunda, 12 kílómetra göngu í þéttri þoku upp á toppinn. Kyrrðin var mikil þarna uppi og fólk flest enn þá sofandi í tjöldum sínum. Ég tók skálavörðinn tali og hann sagði mér að vindurinn ætti á næstu klukkutímum eftir að ná 20 metrum á sekúndu en ef ég hefði hraðann á gæti ég orðið á undan.

Þar sem ég vissi að óveðrið skylli á eftir hádegi...

Næstu klukkutímar voru þægilegir þar sem ég gekk yfir röð snjóskafla og stórbrotið jarðhitasvæði meðfram Kaldaklofsfjöllum. Að lokum stytti upp og sólin lét meira að segja sjá sig í stutta stund. Þetta var dæmigert íslenskt veður. Rétt eins og við var að búast fór að rigna fimm mínútum seinna og í kjölfarið að hvessa og svo aftur í sama farið.

Þegar ég fór að nálgast Jökultungur blasti stórkostlegt útsýni við mér sem teygði sig alla leið að Mýrdalsjökli og Eyjafjallajökli. Landslagið breyttist skyndilega úr brúnum jarðartónum og yfir í fagurgrænan, víðan völl. Sólin skein í gegnum regndropana og yfir dalnum fyrir neðan trónaði regnbogi. Þetta var sérstök stund fyrir mig og tenging mín við landið sterk. Seint um morguninn við Álftavatn, þá búinn að leggja 24 kílómetra undir fót, gaf ég mér tíma til þess að þurrka fötin mín og gæða mér á morgunverði svo ég hefði orku fyrir seinni hálfleik.

Sakleysislegt skiltið sem vísar manni einfaldlega að ganga 16 km að Emstrum benti til þess að næsti áfangi yrði léttur og löðurmannlegur. En það var áður en ég lenti í mestu hellidembu sem ég hef séð á Íslandi. Næstu klukkustundirnar gekk ég í byljandi rigningu á ská sem barði mig vinstra megin og smaug inn í eyrun á mér eins og ég hefði verið að koma úr kafsundi. Þar sem ég þekkti þennan hluta leiðarinnar ágætlega af jeppaferðum mínum um svæðið gat ég séð leiðina fyrir mér í huganum. Það hélt mér á réttri braut og barningurinn við veðrið varð auðveldari.

Áður en ég kom að víðfeðmum öskusléttunum norður af Mýrdalsjökli þurfti ég að komast yfir Bláfjallakvísl, fyrstu stóru ána á göngunni. Ég er vanur að ferja göngufólk yfir Bláfjallakvísl á sumrin og því skemmtilegt að rífa mig úr skónum í þetta skiptið og vaða yfir ána. Ég fékk jarðtengingu við upplifunina.

Með rokið og rigninguna með í för var kominn tími til að æða áfram yfir dökka öskusléttuna sem líkist helst eyðimörk og er mjög ólík öllu öðru á gönguleiðinni. Það er eins og að ganga á annarri plánetu. Þegar þeim áfanga var lokið urðu aðrar veðrasviptingar.

Eins og hendi væri veifað hætti að rigna og mér til mikillar furðu fór ég að sjá í bláan himin hér og þar. Sá böggull fylgdi þó skammrifi að mjög tók að hvessa. Mér er mjög minnistætt að ég fékk á mig svo sterka vindhviðu að það var líkast því að ég hefði orðið fyrir lest.

Með þurrkinn fram undan var ráðlegast að fækka fötum og vera í léttu göngubuxunum og skeljakkanum. Ég uppgötvaði einnig að skórnir mínir höfðu rennblotnað að innan á þeim stutta tíma sem ég var ekki í þeim á meðan ég óð ána svo ég var tilneyddur til þess að skipta yfir í hlaupaskóna. Vindurinn gerði mér lífið leitt þrátt fyrir að ég væri ekki lengur blautur og það tók verulega á andlega að halda áfram að Emstrum, sem markar 40 km af gönguleiðinni.

Um fimmleytið hófst síðasti 16 kílómetra kaflinn frá Emstrum til Þórsmerkur. Ég hef ljósmyndað mikið í Þórsmörk í gegnum tíðina og eftirvæntingin eftir því að ganga yfir alla mörkina veitti mér þá hvatningu sem ég þurfti til þess að gefast ekki upp. Veðrið skánaði með hverri klukkustund sem leið og landslagið breyttist. Ég þræddi djúp gljúfur, fótaði mig meðfram fyssandi jökulám og um grasi vaxna dali. Áður en ég vissi af sá ég glitta í Einhyrning, sem er fjall í sérstöku uppáhaldi hjá mér. Fjallstindurinn gægðist þarna upp úr fjallahringnum. Ég fann að þetta var að taka enda.

Síðustu 10 kílómetrarnir voru erfiðir, bæði andlega og líkamlega. Sem betur fer hafði vindinn lægt og við mér blasti fagurt og kyrrt sólsetur í vestri. Þegar fimm kílómetrar voru eftir varð umhverfið iðagrænt og tré fóru að sjást. Þetta var vinin í eyðimörkinni.

Vinur minn fylgdi mér síðasta hluta göngunnar. Það var notalegt að spjalla við einhvern eftir heilan dag af þögulli áreynslu. Þegar við komum að Þröngá sem er síðasta áin fannst mér engin ástæða til þess að hafa fyrir því að fara úr gönguskónum svo ég óð bara beint út í. Ég hló með sjálfum mér yfir þessari uppreisn eftir þaulskipulagðan dag en í galsanum sem kom yfir mig fór allt að verða rökrétt og fyndið í senn. Ljósin frá skálunum í Þórsmörk lýstu á milli trjánna þegar við þrömmuðum inn í Húsadal rétt eftir klukkan tíu um kvöldið. Nú sá fyrir endann á þessu. Í marga klukkutíma hafði ég hlakkað til að setjast niður. Mikið var gott þegar ég gat það loksins.

Tenging mín við íslenska náttúru magnaðist til muna eftir að hafa lokið þessari 55 kílómetra leið á innan við sólarhring. Stundum er maður hvergi óhultur í víðáttunni og maður þarf virkilega að stilla sig inn á náttúruöflin til þess að geta haldið áfram. Þessari lífsreynslu gleymi ég aldrei.

Hverju skal klæðast

Fatnaður Benjamins í göngunni