Ragnar Axelsson

Heimildir um breytingar

LjósmyndirRagnar Axelsson (RAX)

Núna er ég að einbeita mér að hlutum sem eru að breytast og jafnvel hverfa og norðurslóðirnar eru bara að breytast mjög mikið

Ragnar Axelsson (RAX) ljósmyndari hefur myndað fólk og náttúru á norðurslóðum í fjóra áratugi. Hann hefur séð þetta umhverfi taka miklum breytingum á þessum tíma og hvernig hlýnandi loftslag hefur áhrif á líf fólks í norðrinu. Við hittum á Rax til að ræða þessar breytingar og mikilvægi þess að festa þær á filmu fyrir komandi kynslóðir.

Mér finnst svo skemmtilegt að 'documentera'. Mynda fólk og fá sögur. Mér finnst gaman að vera innan um fólk - kynnast því hvernig það lifir - svo er myndavélin bara eins og penni að taka upp sögurnar. Maður fær annað sjónarhorn - þegar þú ferð þarna um skynjarðu áhyggjur þeirra sem þarna búa á annan hátt. Ég fór fyrst á þennan þvæling á norðurslóðum til að taka góðar myndir en síðan fer maður að hugsa um að segja einhverja sögu og skilja eitthvað eftir sig sem að skiptir máli fyrir framtíðina að sjá.

Þannig að núna er ég að einbeita mér að hlutum sem eru að breytast og jafnvel hverfa og norðurslóðirnar eru bara að breytast mjög mikið. Ég þekki marga góða menn sem eru vísindamenn og þekkja fræðin en þú færð aðra mynd frá heimamönnum sem vita meira en allir aðrir. Þau hafa sagt mér hvað er að gerast hjá þeim - með hafísinn og svona - þetta er breytast og veiðimannasamfélögin sem ég var alltaf svo forvitinn um eiga bara orðið mjög erfitt. Samt eru þau aldrei spurð.

Núna er ég að einbeita mér að hlutum sem eru að breytast og jafnvel hverfa og norðurslóðirnar eru bara að breytast mjög mikið

Það er mikilvægt að 'documentera' þessar breytingar fyrir heiminn að sjá og opna augun fyrir því að það eru 4 miljónir manna sem búa norðan heimskautsbaugs. Heimskautafararnir um síðustu aldamót komu úr sínum leiðangrum með allan sinn fróðleik. Þetta er mikilvægt. Það má ekki segja bara "úbbs - hér er bara gat í sögunni - við gleymdum okkur."

Við erum þrír vinir með lítið forlag og ætlum að klára núna bók á næstu 2 árum um þetta allt, ekki til að að predika neitt heldur bara að sýna lífið og þannig að opna augu fólks fyrir því lífi sem þar er og ef einhver vill að þetta fái áfram að vera til í þessari mynd breytir hann sér kannski bara eitthvað pínu en það er ekki þar með sagt að þurfi að stoppa öll hjól. Það er svona umræðan í dag og það er ekki gagnlegt.

Þetta er afrakstur ansi margra ára og ég er búinn að heimsækja öll 8 heimskautslöndin - búinn að ganga á þessum blaðsíðum sem er allt öðruvísi en að lesa um staðinn hvort sem það er að vera á túndrunni með hreindýrahirðingjum eða fara í lokaðar borgir í Síberíu þá er norðrið magnað.

Það er mikilvægt að 'documentera' þessar breytingar fyrir heiminn

Ljósmyndin hefur ennþá mikilvægt hlutverk. Fjölmiðlar hafa breyst svo mikið en það þýðir ekkert að vera að skæla yfir því að heimurinn hafi breyst. Maður verður að horfa á samtímann. Ljósmyndarar voru einu sinni súpertöffarar en margir hugsa um þá í dag eins og pizzasendla. Ég hef bara aðra skoðun. Við sjáum og upplifum hluti. Ég ólst upp í sveit og er búinn að horfa á jöklana bráðna. Ég áttaði mig á því snemma. Þegar ég fékk myndavél fór ég fljótt að hugsa - hvernig verður þetta eftir 50 ár eða 100 ár og hugsa þannig enn.

Ég hef bara eina reglu í Lightroom og Photoshop og öllu þessu sem maður verður að nota - ég fer ekki yfir það sem ég get gert í myrkraherberginu. Ég þoli ekki myndir sem eru eins og konfektkassalok frá annarri plánetu. Nú koma ferðamennirnir og spyrja hvenær sé kveikt á norðurljósunum - af því þeir sáu bara yfirkeyrða Photoshop mynd og raunveruleikinn er ekki Photoshop.

Ljósmyndin lifir. Hún er þarna. Uppi á vegg og í bók. Ljósmyndir geta breytt heiminum - við sáum það í Vietnam og við sjáum það ennþá gerast í samtímanum eins og í flóttamannakrísunni frá Sýrlandi. Ljósmynd getur breytt helling. Hvernig lifir þetta og hvaða sögu segir þetta? Maður sér hvernig Instagramer - allt þetta fólk að taka endalausar myndir af sjálfu sér - og þá rifjast upp það sem Matthías Jóhannesson heitinn sagði alltaf við okkur: Ljósmyndirinn á að vera spegill á samtímann. Ekki bara á sjálfan sig.