Hlaupið frá kuldanum

Tiana Ósk Whitworth og Anthony Vilhjálmur Vilhjálmsson

Tiana Ósk Whitworth og Anthony Vilhjálmur Vilhjálmsson eru meðal efnilegustu hlaupara landsins. Spretthlaup eiga hug þeirra og hjörtu en til að byggja upp grunnþol eru lengri hlaup hluti af rútínu þeirra. Það þekkja því fáir betur hvernig vetrarharkan og hlaup fara saman. Bæði byrjuðu að hlaupa eftir að íþróttakennarar þeirra í grunnskóla hvöttu þau til að prófa frjálsar íþróttir. Eftir það var ekki aftur snúið og standa þau í ströngu með íslenska landsliðshópnum í spretthlaupum. 66°Norður ræddi við þessa ungu og efnilegu hlaupara um áhrifin sem íslenski vetrarkuldinn hefur á hlaupin, eftirminnilegasta hlaupið og hvað keyrir þau áfram.

Ljósmyndari: Daníel Freyr Atlason

Texti: Jóhann Páll Ástvaldsson

Tiana Ósk Whitworth er 23 ára og hleypur fyrir ÍR auk íslenska landsliðsins. Síðustu ár hefur hún átt við erfið meiðsli í læri að stríða en stefnir nú að koma tilbaka sterkari sem aldrei fyrr. Tiana byrjaði ferilinn með hvelli en þegar hún var 12 ára sló hún Íslandsmet án þess að vita það.

Af hverju byrjaðir þú að hlaupa?
„Ég byrjaði í frjálsum út af því að ég fór í hlaupapróf í grunnskóla. Íþróttakennarinn minn var að taka tímann á okkur og ég var fljótust. Eftir tímann fórum við að athuga hvað Íslandsmetið væri hjá 12 ára stúlkum. Þá hljóp ég sem sagt hraðar en Íslandsmetið. Þannig hann tók mig á fund og sagði að ég þyrfti að byrja í frjálsum.“

Hvað keyrir þig áfram í hlaupunum þessa dagana?
„Ég held það sé bæði að maður er með stór markmið sem maður vill ná, og ég trúi því að ég geti náð þeim. Ég lenti líka í erfiðum meiðslum og ég held að ef það væri ekki fyrir þessi meiðsli þá væri ég búin að ná þessum markmiðum. Svo veit ég ekki hvað ég væri að gera ef ég væri ekki í frjálsum. Þetta er búið að vera mitt daglega líf síðan ég var 13 ára. Þetta er risa partur af því hver ég er.“

Stundarðu önnur hlaup en spretthlaup?
„Á veturna kemur uppbyggingartímabil og þá vinnum við í þolinu. Þá hlaupum við í kringum Laugardalinn til að byggja upp þolið fyrir tímabilið. Ég fer í lengri túra af og til, en ég myndi ekki segja að ég sé langhlaupari.“

Hvernig er það að hlaupa í kuldanum að vetri til? Hvernig hefur íslenski veturinn áhrif á hvernig þú stundar íþróttina?
„Við búum á landi þar sem er svolítið erfitt að æfa úti. Maður er oft að mæta á æfingu liggur við rúllaður inn í svefnpoka til að halda líkamanum heitum, meðan maður er að hlaupa. Það er svo mikilvægt til þess að forðast meiðsli. Almennilegur fatnaður skiptir öllu máli ef maður er á útiæfingum á veturna.“

Eftir tímann fórum við að athuga hvað Íslandsmetið væri hjá 12 ára stúlkum. Þá hljóp ég sem sagt hraðar en Íslandsmetið.

Eru þá mikil viðbrigði þegar þú ferð erlendis að keppa í heitara loftslagi?
„Mjög mikil. Það er alveg þekkt. Við förum oft í æfingaferðir tvisvar á ári til Tenerife til dæmis. Það breytir svo miklu upp á líkamann að gera að vera í hita. Vöðvarnir verða mýkri og minna stífir. Kuldinn hefur svo mikil áhrif á líkamann og jafnvel meira en maður gerir sér grein fyrir. Það sést líka á tímunum þegar þú berð saman hraða í keppnum á Íslandi og erlendis. Ég hleyp alltaf miklu hraðar þegar ég er að keppa úti. Nema það sé einhver met heitur dagur á Íslandi!“

Átt þú þér einhvern uppáhalds stað til að hlaupa?
„Mér finnst skemmtilegast að keppa á Selfossi. Við tölum um að það sé alltaf sól á Selfossi. Við höfum alltaf verið heppin með veður þar, og það er alltaf góð stemning að fara í smá road trip að keppa – og fá sér pylsu á leiðinni heim.“

Er einhver ákveðin 66° flík sem þú notar mest í hlaupum?
„Þegar ég er á útiæfingum er ég alltaf með hárband og vettlinga frá 66°Norður. Ég fer ekki út að hlaupa án þess á veturna. Ég hef einnig notað Kársnes vestið mikið, það var mitt go-to á tímabili. Þegar maður er í hlaupavesti hefur maður þetta frelsi og það heldur á manni hlýju án þess að maður sé alveg innpakkaður.“

Hvað fer í gegnum hugann þegar þú ert á hlaupum?
„Það er misjafnt. Ef ég er að keppa í spretthlaupi gerist þetta svo hratt. Þetta er allt í einu búið og ég næ ekki að hugsa neitt á meðan. Það er oft sem þjálfarinn spyr mig um hlaupið eftir á. Ég segi bara „Ég veit það ekki, þú verður bara að sýna mér myndband af þessu.“

En það er öðruvísi þegar maður er á æfingu og er að skokka eða hlaupa. Þá er maður að pæla hvernig maður er í líkamanum og hvort það sé einhver þreyta. Það er oft svo mikill dagamunur á líkamanum og maður finnur það oft ekki fyrr en maður byrjar að hlaupa.“

Hvaða hlaup er eftirminnilegast?
„Ég myndi segja að það hafi verið hlaup í Þýskalandi 2019 þegar ég sló Íslandsmet kvenna í 100 metra hlaupi. Þetta er smá leiðinleg saga fyrir mig þar sem ég átti það bara í hálftíma. Ég sló metið í undanrásum og í úrslitum hljóp Guðbjörg einu sekúndubroti hraðar en ég. En það var skemmtilegt meðan það entist.“

Hvernig hafa meiðslin haft áhrif á þig?
„Ég er búin að vera í basli með krónísk meiðsli aftan í læri og eftirköstin af því. Þetta er þekkt vandamál hjá spretthlaupurum. Að hlaupa eins hratt og þú getur er gríðarlegt álag á þessa vöðva. Eitt af því sem ég hef þurft að læra að gera er aðallega að passa að líkaminn sé heitur áður en ég hleyp. Ef það er kuldi eða stirðleiki í vöðvunum aukast líkurnar svo mikið á því að maður geti tognað. Það er númer eitt, tvö og þrjú að gera ekki neitt fyrr en maður er orðinn heitur og mjúkur.“

Hvað er helsta markmiðið sem þú ert að vinna að þessa dagana?
„Ég er núna að undirbúa mig fyrir sumarið. Það eru nokkrar landsliðsferðir í sumar. Við erum að fara á Norðurlandameistaramót og Evrópubikar. Síðan er ég að vinna í mínum persónulegu markmiðum sem eru að ná að sigra þessi meiðsli. Ég hef lent aftur og aftur í meiðslum, þannig ég er búin að breyta hvernig ég æfi og passa mig á að ýta líkamanum ekki aftur yfir mörkin. Aðal markmiðin mín í dag eru að komast í gegnum tímabilið heil.

Er eitthvað sem þú vilt bæta við varðandi hlaupin?
„Þó að manni líði illa meðan á hlaupi stendur sigrar alltaf tilfinningin sem maður finnur eftir á. Hvort sem maður er í spretthlaupi eða langhlaupi, þá er þessi tilfinning svolítið eins og eiturlyf. Að finna hvað líkaminn getur gert.“


Anthony Vilhjálmur Vilhjálmsson hefur klifið hratt upp metorðastigann í hlaupaheiminum. Anthony er fæddur árið 2003 en byrjaði seint í spretthlaupum miðað við keppinauta sína, árið 2019. Hann nýtur sín einna best í Nauthólsvík og Ægisíðu á langhlaupum en þegar kemur að spretthlaupum er Laugardalshöll hans annað heimili.

Af hverju byrjaðir þú að hlaupa?
„Ég byrjaði frekar seint, árið 2019. Þetta var aldrei planið en íþróttakennarinn minn í grunnskóla sagði að ég væri fljótur í eltingarleik. Þannig hann benti mér á frjálsar, þannig ég hélt áfram að mæta á æfingar og varð bara hraðari og hraðari.

Hvernig hlaup leggur þú mesta áherslu á?
„Ég er aðallega í spretthlaupum, allt frá 60 metrum upp í 400 metra. En mér líður best í 200 metrum og endaði síðasta ár með næst besta tíma á Íslandi. Það er mitt svona ‚go-to‘.

Hvernig er það að hlaupa í kuldanum að vetri til? Hefur íslenski veturinn áhrif á hvernig þú stundar íþróttina?
„Þegar kuldinn er svo mikill eins og hann er núna er ég ekki að hlaupa löng hlaup. Þá er ég aðallega í Laugardalshöllinni að æfa og reyni að vera minna úti.“

„Kuldinn og veðrið hér hafa mjög mikil áhrif á íslenska hlaupara. Eins og þegar ég fór með landsliðinu í keppnisferð til Þýskalands var sól og þægilegt veður. Mér leið mun betur í líkamanum og ég hljóp miklu hraðar. Ég held að það sé frekar mikill munur á því að æfa og keppa spretthlaup á Íslandi og annars staðar.

Er einhver ákveðin 66° flík sem þú notar mest í hlaupum?
„Ég nota Kársnes hlaupajakka þegar ég er að taka löngu hlaupin mín. Ég myndi segja að það skipti mestu máli að vera í góðum skóm. En þegar ég er að keppa í köldum höllum er ég í fleiri lögum. Ég er líka með léttar langbuxur sem ég fer úr áður en keppnin byrjar.

Þetta var aldrei planið en íþróttakennarinn minn í grunnskóla sagði að ég væri fljótur í eltingarleik.

Hvað keyrir þig áfram í hlaupunum þessa dagana?
„Að sjá allar þessar bætingar. Að sjá mig verða hraðari í keppnum og að keppa fyrir Ísland. Líka félagslífið en ég hef eignast bestu vini í gegnum frjálsar. Ég hitti þau á hverjum degi og það er alltaf gaman hjá okkur.“

Átt þú þér einhvern uppáhalds stað til að hlaupa?
„Þegar ég er að keppa finnst mér mjög gott að keppa í Laugardalshöllinni, þar sem við æfum. En þegar ég fer út að skokka finnst mér mjög þægilegt að hlaupa veginn við Nauthólsvík, fyrir aftan HR. Það er þægilegt en fallegt og kalt, enda upp við sjóinn. Ég byrja í Hlíðunum og hleyp að sjávarsíðunni alla leiðina frá Nauthólsvík og að Ægisíðu.

Hvað fer í gegnum hugann þegar þú ert á hlaupum?
„Ég fer í eitthvað „zone“. Þegar ég er að hlaupa langa leið er ég með góða peppandi tónlist og fer í zone-ið. Það dettur eiginlega allt annað út.

Hvaða hlaup er eftirminnilegast?
„200 metra hlaupið þar sem ég varð Íslandsmeistari í flokki fullorðinna í Kaplakrika 2022.“

Hvað er helsta markmiðið sem þú ert að vinna að þessa dagana?
„Ég er eiginlega búinn að stefna á næsta Norðurlandameistaramót. Ég þarf að ná lágmarki til að komast inn á það.“

Er eitthvað sem þú vilt bæta við varðandi hlaupin?
„Eitt sem má ekki gleyma varðandi að hlaupa er að drekka nóg af vatni. Ég er kominn með tveggja lítra brúsa sem minnir mig á að drekka á ákveðnum tímum yfir daginn. Hydration is key.“


Hlaupafatnaður