Anthony Bacigalupo

Hinn sanni jólaandi

TextAnthony Bacigalupo & Benjamin Hardman
Photos & videoBenjamin Hardman

Ástríða Anthonys fyrir því að skreyta og skapa eitthvað sérstakt kringum húsið hans fyrir hátíðarnar sem allir Íslendingar geta notið hafa aflað honum nokkurrar frægðar, þar sem hann er kallaður jólasveinninn eða jólaálfurinn.

Anthony Bacigalupo er listamaður og leikari sem kemur upphaflega frá Kaliforníu, en lítur nú á Ísland sem heimaland sitt. Undanfarin ár hefur hann einbeitt sér að leik í sjónvarpi og kvikmyndum, en síðan hann stofnaði fjölskyldu hefur hann haft ástríðu fyrir því að hanna og skapa samfélagsrými. Verk hans hafa í gegnum tíðina verið sýnd á sviði sem vídeólistaverk og innsetningar og hann hefur átt í samstarfi við veitingastaði eins og Michelin-stjörnustaðinn Dill, Benedikt á Exeter-hótelinu og núna síðast Hótel Sýsló á Stykkishólmi, sem verður opnað árið 2023.

„Þegar ég kom hingað árið 2009 fór ég út á Snæfellsnes til að vinna að listaverki sem ég ætlaði að sýna í listasafni í San Francisco. Ég vildi týnast í náttúrunni. Vinur minn sem hefur verið á tónleikaferðalagi með Sigur Rós lagði til að ég kæmi hingað. Ég hreifst svo mikið að ég kom þrisvar árið efti og tókst að komast að í gestavinnustofu. 

Hvernig endaðirðu á Íslandi með fjölskyldu og The Shed?

Ég ákvað að taka þetta alla leið svo ég hélt til Djúpavíkur á Ströndum í nokkra mánuði og hélt sýningu þar með vini mínum. Það var fyrsta skiptið sem ég fékk frelsi til að umbreyta rými fyrir mína list, sem svo skemmtilega vildi til að var gömul síldarvinnslustöð, og ég varð háður því.

Það er eitthvað svo sérstakt við að vera einn í sveitinni með eigin hugsunum, svo ég féll algerlega fyrir því og ákvað að verða um kyrrt. Ég kem sjálfur úr smábæ og komst að því eftir að hafa búið í Los Angeles og San Francisco að borgarlífið hentar mér ekki, að ég þurfi að vera í náttúrunni til að öðlast sálarró. Mér tókst ekki að mynda raunveruleg tengsl við fólk á þessum stöðum, aðallega vegna afþreyingar- eða listasenunnar, og ég vildi sambönd sem entust, sem ég virðist hafa fundið á Íslandi. 

Ég gæti ekki hugsað mér það öðruvísi.

Ég held að það sem ég saknaði á þessum tíma í mínu lífi hafi verið að ég hafði engan til að hugsa um eða sem treysti á mig, og áttaði mig á hvað ég væri sjálfmiðaður og að tíminn yrði dýrmætur þegar ég myndi eignast fjölskyldu, svo ég vildi nýta hann sem best. Þegar ég kynntist Ýr, konunni minni, hjálpaði hún mér að komast að svo miklu um sjálfan mig og að koma öllum þeim skapandi hugmyndum sem ég hafði í verk.

Ég uppgötvaði snemma að ég gæti ekki alltaf unnið við það sama í lífinu svo ég ákvað að gera fjölmargt. Suma daga fer ég frá því að taka upp atriði til þess að hugsa um gróðurhúsið og hænurnar, geng svo frá netpöntunum og keyri að lokum til Stykkishólms til að hanna lítið hótel sem mér var falið að skapa. Ég gæti ekki hugsað mér það öðruvísi.

Ýr er sjálf skapandi og eftir að hafa verið með Reykjavík Trading Co. (litla hönnunarstúdíóið okkar) í nokkur ár ákváðum við að opna The Shed, samkomurými sem selur smávörur og kaffi og er með litla vinnustofu þar sem við gætum unnið að verkum án þess að þurfa að fara út úr rólega garðinum okkar.

Þessi hugmynd hafði í raun aldrei áður verið framkvæmd hér svo það varð nokkuð vinsælt hjá fjölskyldum að koma að versla en einnig að njóta garðsins. Með hverri árstíð stækka trén og blómin okkar, og um leið eykst áhuginn á The Shed. Fólk áttaði sig á hvað þessi staður veitir bæði heimamönnum og ferðamönnum sem eru að leita að svæði þar sem þeim líður eins og heima hjá sér, en líka að fallegri hönnunarvöru fyrir eigin heimili.

þessi litla eyja er ekki fyrir alla, en ég á heima þar sem hjarta mitt býr.

Hvernig hefur verið að ala fjölskyldu á Íslandi (vegna veðursins og birtunnar) og hverjar eru ykkar jólahefðir?

Það hefur verið áhugavert. Það hvarflaði ekki að mér þegar ég kom fyrst árið 2009 - ég hafði ekki hugsað svo langt fram í tímann en enginn veit sína framtíð - og sú ákvörðun að búa hér til frambúðar er sú besta sem ég hef tekið. Ég vildi alltaf búa í sveitinni en konan mín er frá Hafnarfirði og við töldum best að finna okkur hús þar sem við hefðum nægt landrými og möguleika en værum samt tengd samfélagi. Þá fundum við húsið okkar.

Það er með þeim elstu í bænum og hefur góða orku sem er stundum erfitt að finna í 140 ára timburhúsi. Það er lifandi og nálægt sjónum en nýtur skjóls af öllum trjánum sem ég hef gróðursett í gegnum árin og nálægt litla „Hamrinum“ þar sem álfarnir búa og vernda okkur. Það er það sem ég elska mest við litla bæinn okkar. Það eru margar skemmtilegar munnmælasögur af álfum í kringum heimilið okkar.

Þegar ég sé ástandið á heiminum, orðinn faðir, átta ég mig á að heilsa og öryggi skiptir mig mestu máli. Við höfum verið spurð hvort við myndum flytja aftur til LA og vinna þar (til þess að sinna leiklist og fyrirsætustörfum) en í sannleika sagt finnst mér streitan og brjálæðið þar enn frekar gera Ísland að þeim stað þar sem ég vil alltaf vera. Vetrarhörkurnar og óstöðugt veðurfarið angra mig ekkert. Auðvitað getur veðrið og loftslagið verið erfitt og þessi litla eyja er ekki fyrir alla, en ég á heima þar sem hjarta mitt býr.

Ég hef verið kallaður ýmislegt í íslenskum fjölmiðlum: Clark Griswold, jólasveinninn, jólaálfurinn frá Kaliforníu, svo eitthvað sé nefnt. En svo skrýtið sem það er skreytti fjölskyldan mín ekkert mikið eða setti upp stórt jólatré, eiginlega þvert á móti. Kannski vil ég gera það fyrir fjölskylduna mína vegna þess að ég naut þess ekki í æsku, eða kannski segist ég gera það fyrir þau en hef mest gaman af því sjálfur.

Hverju skal klæðast

Karlar
2 samsetningar
Karlar(4 útgáfur)
Konur(4 útgáfur)

Það sem dró mig til Íslands var að ég þráði að vera einn og finna hliðar á sjálfum mér sem ég hafði ekki kannað, og eftir því sem árin hafa liðið hefur orðið áhugaverð breyting því nú vil ég skapa samfélag með hönnun minni og verkefnum. En það sem hefur verið svo magnað er allt fólkið sem ég hef fengið að kynnast vegna þess.

Ég man að fyrir nokkrum árum kom svona 85 ára gömul kona í garðinn okkar með dóttur okkar þegar ég var að hengja ljós á tréð, hún talaði litla ensku og var með tárin í augunum. Hún ólst upp í húsinu við hliðina á okkur og var að koma aftur til að sjá breytingarnar sem ég hafði gert og litla skóginn sem ég hafði ræktað í kringum húsið okkar. Hún sagði að garðurinn minn á veturna væri það fallegasta sem hún hefði séð á ævinni og faðmaði mig. Það eitt þýddi að allt sem ég hef gert er þess virði. Ég náði að snerta eina sál, með svona einföldum hlutum, falleg ljós á trjágreinum að vetri til höfðu þessi áhrif á hana.

Það sem fær mig einnig til að brosa er þegar ég heyri af öllum fjölskyldunum sem koma að skoða garðinn okkar á veturna og taka jólafjölskyldumyndina þar og koma við í versluninni okkar The Shed jafnvel þótt það þurfi að keyra í marga tíma í hríðarbyl. Þannig veit ég að við erum að gera eitthvað rétt.

Meðan á Covid-faraldrinum stóð bað bærinn mig um að hjálpa honum að gera eitthvað sérstakt til að fá fólk til að fara út og ganga í náttúrunni með öruggum hætti. Það sem kom út úr því var Hellisgerði sem varð fljótt mesta aðdráttarafl bæjarins. Það var mjög eftirminnilegt fyrir mig og mína fjölskyldu að vinna með frábæru fólki frá bænum...