Íslensk sundmenning

Í sundlaugunum erum við öll jöfn

Með sjóinn allt í kringum okkur hefur okkur Íslendingum verið kennt að synda frá blautu barnsbeini. Það sem byrjaði sem sjálfsbjargarviðleitni þjóðar hefur orðið að fasta í íslenskri menningu.

Myndir og myndbandBirna Ketilsdóttir Schram
TextiBirna Ketilsdóttir Schram
Staðsetning64.1446° N, 21.9625° V

Það fyrsta sem við söknum þegar við flytjum til útlanda er að geta ekki farið í íslensku laugarnar og þegar við lendum á Keflavíkurflugvelli erum við yfirleitt ekki lengi að drífa okkur ofan í pottinn til að hitta vinina og fara yfir málin. Þá fyrst erum við komin heim. Allt frá því að Snorralaug var hlaðin í Reykholti á landnámsöld höfum við leitað í vatnið og laugarnar.

Hvort sem það er til að rækta líkama og sál, fá smá frið frá ytri áreiti og síma, hitta vinina og ræða heimsmálin í pottunum eða fara með börnin í kvöldsund fyrir háttinn virðist baðmenningin á Íslandi vera jafn fjölbreytt og sundlaugarnar eru margar. Við ræddum við nokkra reynda sundgarpa um hefðir þeirra og tengingu við sund.

Anna Margrét

Anna Margrét Ólafsdóttir er myndlistakona sem býr í Vesturbænum, Hún stundar sundlaugarnar af miklum krafti en Vesturbæjarlaug er hennar staður. Sundið er stór hluti af sköpunarferlinu og það hjálpar henni að koma hugmyndavinnunni í flæði. Stundum fer hún tvisvar sinnum á dag í laugina.

„Baðmenning á Íslandi er náttúrulega frekar sérstök. Þetta er mjög rótgróið í menningu okkar, að fara í sund. Við notum þetta bæði fyrir líkama og sál, bæði fyrir einveru og samveru. Það er mjög viðurkennt að fara ein í sund og vera í friði og hugsa vel um sig. Svo er þetta líka afþreying með börnum eða vinum eða staður til að fara að spjalla eða hreyfa sig eða sóla sig eða anda í gufunni. Það er allt í þessu.“

„Þetta er fordómalaus staður, fólk er þarna saman á sundfötunum að ræða eitthvað í pottunum, alveg sama hvaðan það kemur eða hvað það gerir. Þetta er bara manneskja og líkami í sundi.“

Þetta er fordómalaus staður, fólk er þarna saman á sundfötunum að ræða eitthvað í pottunum, alveg sama hvaðan það kemur eða hvað það gerir.

Chanel Björk

„Þetta er eina útiveran sem veður hefur ekki áhrif á hvort ég stunda eða ekki. Yfir veturinn er líka kósí að sitja í frosti og fá klaka í hárið ef maður er ofan í sjóðandi heitum potti.“

Chanel Björk Sturludóttir er baráttukona fyrir jafnrétti þeirra sem eru af erlendum uppruna á Íslandi. Chanel hefur unnið sem framleiðandi en er nú kunnug landsmönnum fyrir framan myndavélina þar sem hún starfar í teymi Kastljóssins á RÚV.

„Ég byrjaði á því núna í sumar að fara snemma í sund. Það er eitthvað svo dásamlegt að fara í sund á þessum tíma þegar það er lítið af fólki, það eru allir bara í sínu. Það eru allir að vakna, fara á fætur og gera sig til í daginn.“

Sigrún Perla

„Í sjónum skapast þessi merkilega stund þar sem þú ert algjörlega ein með sjálfri þér, umlukin hafi.“

Sigrún Perla Gísladóttir er arkítekt, sjóbaðskona og stundar nám við haffræði við Háskóla Íslands. Perla kynntist danskri baðmenningu þegar hún stundaði nám í arkítektúr í Árósum og varð heilluð af henni. Ólíkt sundmenningunni hér á Íslandi notast Danir meira við kaldan sjóinn í bland við heitar sánur og tíðkast oft að fara nakin í sund. Þegar Perla flutti heim til Íslands fór hún að ýta meira undir slíka baðmenningu hér á Íslandi. Hún byggði sjóbaðssánuna Saman á Seyðisfirði og stofnaði verkefnið Sjávarmál undir rannsókn sína við samband fólks við sjóinn.

„Við förum vel með það sem okkur þykir vænt um. Ég styrki þannig samband mitt og kynnist sjónum betur og betur í hvert skipti sem ég baða, og eftir því sem ég kynnist honum betur og betur, því meira er ég reiðubúin að gera fyrir hann.“

Þetta er eina útiveran sem veður hefur ekki áhrif á hvort ég stunda eða ekki

Fyrir sundferðina