Smölun í Breiðamerkurfjalli

Beitiland milli jökla

Myndband og LjósmyndunÞorsteinn Roy Jóhannsson og Hörður Þórhallsson
TextiÞorsteinn Roy Jóhannsson og Hörður Þórhallsson
Staðsetning64°00'57.60" N -16°58'19.20" W

Það krefst mikillar ástríðu að vera sauðfjárbóndi á Íslandi.

Það krefst mikillar ástríðu að vera sauðfjárbóndi á Íslandi. Það er margt sem gefur meira í aðra hönd og starfið er tímafrekt með eindæmum - en samt geta þeir sem það velja ekki hugsað sér nokkuð annað. Til viðbótar við alla þá einurð velja þeir að sleppa fénu hátt í fjöll yfir sumarið þar sem það leikur lausum hala þar til fer að hausta og vandasamt og erfitt verk bíður bændanna: Að smala fénu aftur niður af fjallinu.

Sögnin "að smala"  lætur lítið yfir sér en hefur mikla merkingu. Um er að ræða mikla vinnu sem felur í sér krefjandi fjallgöngur og samvinnu við að beina fénu í rétta átt.

Bændurnir sjálfir tala um þetta af lítillæti. Þeir kalla þetta einfaldlega göngur, eins og þetta sé hver annar göngutúr. Það er hluti af hátterni íslenskra bænda að tala af ákveðnu fálæti um allt sem gerist í kringum þá, kannski ef undanskilin er gremja yfir ágangi gæsa á beitiland.

Göngurnar eru ekki bara hluti af starfinu þeirra. Þær eru hluti af arfleifðinni. Bændurnir njóta hverrar mínútu, jafnvel þótt þetta geti verið virkilega krefjandi og hættulegt.

Bændurnir í Öræfum leyfðu okkur að fylgjast með göngunum á Breiðamerkurfjalli, nærri Fjallsárlóni á Suðausturlandi núna í haust. Fjallið er um 900 metrar að hæð og göngurnar taka um 8-10 klukkustundir að meðaltali ef kindurnar eru til friðs. Við hittum smalana kl. 5:45 þegar enn var dimmt og hófum gönguna að fjallinu.

Bændur þurfa að flytja féð yfir jökulá á þar til gerðum pramma.

Breiðamerkurfjall hefur verið beitiland svo lengi sem elstu menn muna en á síðustu áratugum hafa aðstæður á svæðinu gjörbreyst. Fjallið var umkringt jökli sem skiptist í tvennt á fjórða áratug síðustu aldar og stendur nú milli tveggja skriðjökla, Fjallsjökuls og Breiðamerkurjökuls. Síðan þá hafa bændur þurft að fara yfir jökulá til þess að komast að fjallinu. Margir spurja sig þó eflaust að því hvernig þeir koma fénu yfir ána til baka.

Fyrir mörgum árum hönnuðu framtakssamir bændur úr Öræfum sérútbúinn pramma til þess að ferja fé yfir ána. Honum hefur verið haldið vel við og þjónar tilgangi sínum enn þann dag í dag. Sveitungar segja þetta eina staðinn á Íslandi þar sem prammi kemur við sögu í smölun.

Sá sem leiddi hópinn var Hilmar Þór Sigurjónsson, 34 ára bóndi frá Litla-Hofi, en með honum var vel mannaður smalahópur. Hilmar hefur mikla reynslu af göngum þrátt fyrir að vera fremur ungur að árum. Hann hefur farið í göngur síðan hann var 8 ára. Við vissum því að við værum í góðum höndum.

Á leið okkar að fjallinu nam hópurinn staðar við minnisvarða um atburð sem átti sér stað veturinn 1936. Sigurður Björnsson bóndi á Kvískerjum var við leitir á þessum slóðum ásamt Gunnari Þorsteinssyni þegar snjóflóð féll. Á þeim tíma var svæðið undir jökli.

Snjórinn ruddi Sigurði niður fjallshlíð. Fallið er talið hafa verið 212 metrar og féll Sigurður niður að jökli og skorðaðist ofan í 28 m sprungu undir jökulröndinni. Gunnar varð vitni að fallinu en kom hvergi auga á Sigurð. Hann sneri aftur til byggða og fékk bændur á nærliggjandi bæjum ásamt Pál, bróðir Sigurðs, með sér í leitina. Þeir leituðu án árangurs fram undir myrkur og sneru þá heim. Þeir vissu að þeir myndu líklega aldrei sjá Sigurð aftur en neituðu þó að gefa upp alla von.

Þeir hófu leitina aftur næsta morgun. Þeir voru við það að gefast upp þegar Páll heyrði hljóð berast úr nærliggjandi sprungu. Þeir þekktu hljóðið þegar þeir nálguðust. Þetta var Sigurður að syngja eftirlætissálminn sinn. Sálmurinn var „Lofið vorn drottinn“ sem lýsir því hvernig guð vísar okkur rétta leið. Sigurður hafði lifað þetta af með undraverðum hætti og söng án afláts ofan í sprungunni því hann vissi að hann fyndist aldrei ef á hann sigi svefn. Hann lá hjálparlaus í sprungunni í rúman sólarhring. Tónelskur bróðir Sigurðar, Páll, sagði síðar að hann hefði aldrei heyrt fallegri söng á ævi sinni en túlkun bróður hans á sálminum sem hann söng þennan örlagaríka dag (7. nóvember 1936).

Það var ekki bara sálmurinn sem bjargaði lífi Sigurðar. Sigurður hafði gripið með sér hey úr hlöðunni áður en hann lagði af stað að fjallinu og ætlaði hann að nota það til þess að lokka til sín nálægar kindur og geymdi það því innan klæða. Heyið huldi bringuna og varði hann falli þegar hann lenti. Annað kom einnig til. Sigurður barðist hetjulega fyrir lífi sínu þegar snjóflóðið féll og náði að flýja það í nokkra stund. Mikil fönn ruddist fram hjá honum áður en snjóflóðið náði honum aftur. Snjórinn sem kom á undan mýkti því fallið þegar Sigurður féll á harða jörðina.

Hópurinn skipti sér fljótlega eftir að stoppað var við minnisvarðann. Það er farið upp austanmegin í fjallinu og féð svo rekið niður vestan til. Einn hópurinn gekk upp Múlahöfuð, annar hópur stefndi á Meingilstorfu og sá þriðji fór inn í Jökuldal. Hóparnir koma svo allir saman niður með féð á ákveðnum tímapunkti og fóru sömu leið niður fjallið. Það skiptir því miklu máli að samskiptin séu góð í fjallinu svo að einn hópurinn fari ekki á undan hinum. Ef einn hópur færi á undan skilur hann eftir sig "gat í vörninni" og þá sleppa kindurnar. Ef samvinnan er ekki góð, þá gengur smölunin illa.

Það gefur auga leið að gangnamenn bera bakpoka við smölun á fjalli. Þetta er langt ferðalag og það er nokkuð öruggt að það kemst enginn í hádegismat eða nokkuð annað ef því er að skipta. Maturinn sem er með í för er fremur sérstakur. Hann er venjulega eins íslenskur og hugsast getur, lifrarpylsa og flatbrauð með hangikjöti og miklu smjöri. Ásamt þessu hafa gangnamenn með sér eitthvað hentugt, svo sem hnetublöndu, þurrkaða ávexti eða súkkulaðirúsínur sem auðvelt er að hafa í vasanum og grípa í án þess að þurfa að stoppa.

Það er athugavert að reyndir gangnamenn tóku ekkert vatn með sér, að minnsta kosti ekki á leið upp fjallið. Þegar hópurinn ferðbjóst um morguninn var nýliðum sagt að skilja vatnsflöskurnar eftir heima út frá þeim rökum að of þungt sé að bera vatn á bakinu og gangnamenn telja það algjöran óþarfa. Maður drekkur það sem fjallið gefur í stað þess að burðast með vatn alla leið. Á fjallinu eru fjölmargir lækir og ár þar sem hægt er að drekka hreint og kalt vatn. 

Göngustafurinn er þarfasti þjónn smalans og gegnir hann mikilvægu hlutverki í ferðalaginu. Stafurinn sparar mikla orku í göngunum og hjálpar til við að halda jafnvægi í lausgrýttum brekkum og yfir ár, og gefur mótstöðu niður brekkur. Þeir kalla þetta meira að segja „þriðja fótinn“. Það merkilega við þessa göngustafi er að þeir fást ekki úti í búð. Þeir voru hannaðir og smíðaðir fyrir löngu af bændum í sveitinni - sígildir gripir sem ganga kynslóð fram af kynslóð.

Fjallið er stórt og það eru rúmlega 250 kindur á þessu eina fjalli. Kindurnar hafa hópað sig saman í litla flokka, sem vanalega samanstanda af tveimur til sex kindum, á mismunandi svæðum fjallsins. Leitin hófst því öðrum megin við fjallið og kindunum safnað saman á leiðinni þangað til hópurinn var komin niður hinum megin.

Það sem kemur e.t.v. á óvart er að kindurnar eru oftast í svo mikilli fjarlægð fyrir framan mann að maður sér þær varla. Fjarlægðin er slík að maður sér bara litla díla og svo verður maður að halda sig í talsverðri fjarlægð frá þeim svo það sé auðveldara að stjórna þeim.

Hið hefðbundna borgarbarn myndi ekki átta sig á að þessir dílar væru kindur, en í augum þrautreynds bónda er þetta morgunljóst. Þeir virðast alltaf vita af kindunum, alveg sama hversu langt í burtu þær eru. Þarna kemur reynslan sterk inn, en góðir bændur þekkja sínar kindur betur en þeir þekkja sjálfa sig. Þeir vita hvar þær vilja vera á fjallinu og vita þess vegna hvar er best að leita.

Það er mikilvægt fyrir bændurna að ná fénu heim fyrir veturinn, sér í lagi vilji þeir halda uppi þessarri hefð. Verkið verður að vinna almennilega og það er algjört lykilatriði að velja góðan dag. Ferðin sjálf er erfið en á slæmum þoku-, rigningar- eða hvassviðrisdegi verður hún ógerleg. 

Hér getur íslenska veðrið skapað vandamál, en íslenska haustveðrið getur verið mjög óútreiknanlegt. Sérstaklega þó þar sem bændur velja helgar til þess að smala á fjöllum þar sem hjálp er auðsóttari þá. Það að finna hentuga helgi í lok september getur verið vandasamt.

Það er aðdáunarvert hversu vel bændurnir þekkja svæðið. Þeir virðast ekki einungis þekkja hvern stein og hverja þúfu í landi sínu - heldur veðrið líka. Veðurspá dagsins sem við fórum á fjall var gjörólík þeirra spá fyrir þann sama dag. Skipuleggjendur höfðu fylgst með veðurspánni í marga daga og þegar helgin nálgaðist leit út fyrir fresta þyrfti leiðangrinum. Bændurnir héldu nú ekki og sögðu öllum að vera í startholunum. Að þeirra mati voru meiri líkur en minni á því að veðrið yrði fínt þennan dag. Og þeir höfðu rétt fyrir sér.

Einungis degi áður hringdi einn bændanna í þá sem ætluðu að leggja til hendi og staðfesti að það yrði úr leiðangrinum, jafnvel þótt veðurfræðingar heimsins segðu fólki á þessum slóðum að halda sér heima. Meðan smölunin fór fram í ágætisveðri hélst fréttaveðurspáin meira að segja hin sama og áður.

Það er því visku sveitunga að þakka að farið var á fjall þennan dag, en veðrið reyndist mjög stillt.

Þótt það hafi verið rétt ákvörðun að ganga á fjöll þennan dag var það ekki vandalaust. Smalamennska er almennt hættuleg ef maður fer ekki varlega, fjallið er bratt og ef maður dettur er ekki víst maður nái að stoppa. Það var því einkar vandasamt þar sem það hafði rignt dagana áður og rakinn gerði grjótið hált. Í lok dags hafði þokumuggan aukist mikið sem þýddi að auðveldara var að villast. En þessar hættur eru óhjákvæmilegar og öllum bændum og gangnafólki kunnugar áður en gengið er á fjall.

Það mætti halda að bráðnauðsynlegt væri fyrir bændur að hafa fé á fjöllum. Ótrúlegt en satt, þá er það ekki svo. Þetta er gert til að halda í hefðirnar sem fylgt hafa hverri kynslóðinni á fætur annarri. Það dettur engum í hug að hætta þessu. Þrátt fyrir að þetta sé hættulegt og þrekraun fyrir líkama og sál, þá eru göngurnar tilhlökkunarefni hvert ár.

Tíu klukkustundum síðar, eftir að hafa þrætt fjallið þvert og endilangt, var fénu loksins komið niður í rétt. Í réttinni bíður féð á meðan bændurnir finna út hver á hvaða kind. Síðan eru kindur sem dregnar hafa verið í dilka ferjaðar yfir jökulána á prammanum sem minnst var á hér ofar. Hinum megin við ána tekur bóndi á móti fé sínu með bros á vör eftir heilt sumar af fjarveru. Fénu er komið fyrir á vagni og því komið heim á bæ.

Andrúmsloftið í réttunum er létt og notalegt. Það er mikil ánægja sem fylgir því að hafa lokið þessu stóra verkefni sem göngurnar voru. Bændurnir grínast og allur taugatitringur er úr sögunni. Uppi á fjalli voru þeir önnum kafnir, enda margt sem þurfti að klárast og þeir vildu nýta daginn sem best þar sem fólk hafði komið víða að til þess að aðstoða.

Það er engin tilviljun að margt fólk bjóðist til að vera með í göngum. Það er mjög gefandi þrátt fyrir að vera erfitt. Vinnan er með metnaðarfullu fólki sem veit hvað það er að gera og veit hvernig það getur nýtt sér styrkleika aðstoðarfólks.

Að finna réttu orðin til að lýsa upplifuninni að taka þátt í réttum er erfitt, en til allrar lukku þá leyfðu bændurnir í Öræfum okkar að fylgja sér yfir daginn svo hægt væri að mynda og skrásetja þessa merkilegu hefð.

Leikstýring og framleiðsla: Beit productions
Hverju skal klæðast

Fatnaður í réttum