81 árs módel í auglýsingu 66°Norður

Á dögunum auglýstum við hjá 66°NORÐUR eftir starfsfólki. Ein umsóknin skar sig heldur betur út og vakti athygli á landsvísu. „Ég var nú bara að gera smá grín,“ segir Ásdís Karlsdóttir, 81 árs Akureyringur, sem spurði okkur á Facebook hvort okkur vantaði ekki fyrirsætu og birti að því tilefni myndir sem sýndu fram á meðfædda módelhæfileika hennar. Uppátækið fékk strax rífandi viðbrögð og innan við viku síðar hafði hún setið fyrir hjá ljósmyndara 66°NORÐUR.

En hvernig verður 81 árs gömul amma, sem hefur aldrei setið fyrir áður, að ljósmyndafyrirsætu? „Ég fór í leik á netinu: Hvaða starf myndi henta þér best og þá er það módel. Og bara næsta mynd fyrir neðan er auglýsing frá 66°NORÐUR fyrir mörg skemmtileg störf. Ég fór ekkert inn á síðuna, ég bara lækaði – svo ég sletti nú – og kommentaði: Vantar ykkur ekki módel? Ég er áttatíu ára. Svo skellti ég inn einum fimm svona sprell myndum. Morguninn eftir vakna ég við að það hringir í mig blaðamaður frá Vísi sem vill birta frétt um málið.“

„Þetta er hreinasta ævintýri, þetta er búið að vera ævintýri fyrir kellingu á mínum aldri. Mér finnst þetta gaman, þetta er tilbreyting.“

Hefði þig grunað fyrir viku síðan að þú myndir fá svona mikla athygli? „Þetta er hreinasta ævintýri, þetta er búið að vera ævintýri fyrir kellingu á mínum aldri. Mér finnst þetta gaman, þetta er tilbreyting.“

Þó að færsla Ásdísar hafi verið sett fram í gríni, fylgir henni nokkur alvara. Í og með vildi Ásdís vekja athygli á að þó að fyrirsætur í auglýsingum fataframleiðenda séu öllu jafna í yngri kanntinum, þá verða að vera til föt fyrir alla. Það skiptir ekki máli hversu gamalt fólk er eða hvernig það er í laginu – allir þurfa að klæða sig. Fólk verður að klæða sig eftir veðri og aldri.

Fréttin og færslan fékk strax góð viðbrögð, ekki síst hjá Akureyringum sem þekkja til hennar, en Ásdís var íþróttakennari við Verkmenntaskóla Akureyrar í 20 ár. „Ég er kannski líka þekkt fyrir að vera dálítið öðruvísi. Ég keypti mér til dæmis barnavagn til að vera ekki alltaf að biðja um skutl í búðina af því að ég kann ekki á bíl.“

Aldur og veður eru hugarástand.

Útivera og hreyfing er stór hluti af daglegu lífi Ásdísar. Hún fer í langa göngutúra því sem næst á hverjum degi, stundum í allt að tvær klukkustundir. „Ég geng misrösklega eftir færð. Það hefur verið ægilega hált í skammdeginu, næstum eins og skautasvell í langan tíma í vetur og eftir jól. En núna er yndislegt göngufæri – á broddum.“

„Mínar bestu flíkur eru eldgamlar buxur og jakki frá 66°Norður. Ég fer í ekkert nema það, nærfötin undir, ullarsokkana og vindhelt þar yfir. Og mér er aldrei kalt.“ Hún segist eyða sáralitlu fé í föt. „Ég eignaðist þessi föt á dálítið sérstakan hátt. Maðurinn minn átti alltaf 66°Norður föt til skiptanna bæði úti og inni. Hann var bundinn við hjólastól eftir að hann veiktist og þurfti þá stærri föt.“ Ásdís nýtir sér enn gömlu fötin hans.

Einnig notast Ásdís mikið við rauða 66°Norður úlpu sem dótturdóttir hennar átti, en það er ekki akkúrat liturinn sem hún hefði valið. „Dótturdóttir mín sagði: Hún fer þér svo vel amma, hún er of stór á mig. Þegar ég þarf að bíða lengi eftir strætó og það er stormur og stórhríð þá fer ég í þessa úlpu.“

Þó að gömlu 66°Norður flíkurnar standi enn fyrir sínu sat hún fyrir í fötum úr núverandi línu. En varð henni nokkuð kalt meðan á myndatökunni stóð?

„Nei, ekki til. Þetta eru rosalegar flíkur. Mér fannst rosalega gaman að þessu og hlakka til að fá að sjá af mér myndir. Ég held að gula úlpan klæði mig betur en þessi rauða sem ég á. En hún mætti ekki þrengri vera. “

 

Á skíðum í pilsi og kápu

Sjóklæðagerðin hafði aðeins verið starfandi í um 9 ár þegar Ásdís fæddist. Eins og fram hefur komið er Ásdís þó enginn eftirbátur ungafólksins þegar kemur að tölvum og samfélagsmiðlum. Hún hefur auk þess fengist við það upp á síðkastið að skrifa endurminningar á tölvuna, ekki af því að stefni á að hefja útgáfuferil, heldur vill hún segja barnabörnunum frá sjálfri sér.

„Barnabörnin mín lifa við gjörsamlega aðrar aðstæður en ég og jafnvel foreldrar þeirra. Ég er búin að fara í gegnum svo ægilega byltingu, til dæmis bara í sambandi við heimilisstörf og íþróttir.  Og svo náttúrulega núna þessi yndislega tækni. Ég man eftir þegar fyrsta útvarpið kom á heimilið. Við fengum ekki síma fyrr en ég var 15 eða 16 ára. Og handsnúinn grammafónn.“

Og tískan fer í hringi. „Gamlar dragtir sem ég átti, ég gæti farið í þetta allt í dag. Ég puntaði mig aðeins upp fyrir ljósmyndara frá Fréttablaðinu sem var hérna áðan og fór í skó sem voru örugglega svona 45 eða 46 ára. Þeir ganga í dag.“

En hvað fatnað varðar hefur mesta byltingin orðið í kuldafatnaði. „Í gamla daga var ég að prjóna allt á krakkana. Þau voru í hverju prjónalaginu utanyfir annað. Með elstu krakkana var maður bara hamingjusamur ef maður náði í eitthvað sem hrinti frá sér til að sauma upp úr vindhelda og vatnshelda flík.“

„Þegar ég fór í fyrsta skipti á skíði, 5 ára, þá var ég prjónasokkum, pilsi og kápu. Það yndislegasta við klæðnaðinn finnst mér kuldaklæðnaðurinn, maður þarf ekki lengur að dúða sig.“

Ásdís segist ákveðin í að nýta hvern einasta dag og hafa gaman af lífinu. „Af hverju ætti maður ekki að leika sér og hafa gaman þegar maður er gamall?“

Hverju skal klæðast

Uppáhalds flíkur Ásdísar