Gísli Matthías Auðunsson

Eldfjöllin í bakgarðinum

Myndband og ljósmyndunÞorsteinn Roy og Snorri Björnsson
TextiMetthew Tufts
Staðsetning63° 24, 13' N, 019° 07,83' V

Gísli Matthías Auðunsson matreiðslumeistari frá Vestmannaeyjum býr ásamt konu sinni Hafdísi Konu Ástþórsdóttu og fjórum börnum á Helgafellsbrautinni í Vestmannaeyjum þar sem þau eru með tvö eldfjöll í bakgarðinum, Helgafell og Eldfell. Fjölskylda Gísla stofnaði og rekur veitingastaðinn Slippinn í Vestmannaeyjum. 

Eldgosið

Núna eru akkúrat 50 ár liðin frá eldgosinu í Vestmannaeyjum. Eldgosið hófst þann 23. Janúar 1973 og varði til 3. Júlí sama ár. Það opnaðist um 1600 metra löng sprunga og til varð eldfjallið sem heitir nú í dag Eldfell. Eyjan gjörbreyttist og mörg hús fóru undir hraun og ösku.  

“Til að mynda húsið sem við búum í í dag. Það rétt sást í topp endann á þakinu fyrir ösku. Það var bara ólýsanlegur dugnaður í fólkinu í Vestmannaeyjum sem gróf upp eyjuna úr öskunni, fólk sem hafði sterka þrá til að búa hérna. Það var magnað afrek að gera þetta á svona stuttum tíma, það er að segja að fólk hafi geta flutt hingað aftur. En að sama skapi skil ég vel fólk sem gat ekki flutt aftur, kannski fólk sem missti allt sitt. Vestmanneyjingar hafa verið þekktir fyrir mikinn dugnað, enda eitt af stærstu sjávarþorpum landsins. Ég held að svona atburðir styrki þessa samstöðu”. 

Þrátt fyrir þessa miklu náttúru, eldfjöll, hraun og kletta telur Gísli Vestmannaeyjar vera frábæran stað til þess að búa á og ala upp börn. 

“Það er stutt að fara í allt, og ótrúlega mikið öryggi hérna og bara náttúru út um allt. Náttúran er bara í bakgarðinum, við erum með eldfjall í bakgarðinum og horfum út á sjó. Þetta eru þvílík lífsgæði. Ég man bara eftir því þegar ég var ungur, ég var úti heilu og hálfu dagana að grúska og leika mér niðri í fjöru, úti í hrauni eða þá á sveitabæjunum sem eru hérna í kring að skoða dýrin”.  

Eins og kostirnir eru margir við lítil samfélög þá finnast einnig áskoranir við að búa á svona stað. Það getur verið erfitt að komast til eyja, eða í land.  

“Samgöngur geta verið erfiðar þegar maður býr á Íslandi og á eyju. Veturinn er aðeins erfiðari heldur en sumrin, það er minna um menningarviðburði og minna líf í bænum. Margt ungt fólk fer í bæinn eða erlendis í skóla en margir flytja til baka á sumrin. Það er einhver ákveðin orka sem er hér á sumrin, mikið að gerast, gott veður og falleg náttúra að skoða”.  

Við viljum nota hráefni í kringum okkur til að bjóða fólki upp á og viljum að fólk upplifi stað og stund þegar þau borða hjá okkur.

Veitingastaðurinn Slippurinn opnaði árið 2012 með það að markmiði að búa til veitingastað sem Vestmanneyingar gætu orðið stolt af. Markmiðið var að nota hráefni af eyjunni í eins miklu magni og hægt var.  

“Núna 11 árum síðar er markmiðið nákvæmlega það sama nema bara stærra. Í fyrstu vorum við að nota tvær til þrjár tegundir af jurtum en nú eru þær orðnar hátt í þrjátíu talsins. Við viljum nota hráefni í kringum okkur til að bjóða fólki upp á og viljum að fólk upplifi stað og stund þegar þau borða hjá okkur. Að þau finni það í gegnum matinn og drykkina að þau séu í Vestmannaeyjum yfir sumar á Íslandi. Að sama skapi er númer eitt, tvö og þrjú að virða náttúruna. Við týnum bara hráefni í því magni sem náttúran ræður við og notum bara villtar plöntur. Við erum hérna í Vestmannaeyjum og það er, eins og á öllu íslandi, endalaust af hráefni sem hægt er að nýta sér, bara með vitneskju. Þá er ég ekki að segja að við séum einhverjir snillingar. Við erum bara búin að læra aðeins meira á hverju sumri. 

Vestmannaeyjar er eitt stærsta sjávarpláss á Íslandi þar sem allt hefur snúist um fisk síðustu árhundruð. Þar af leiðandi er þorri réttana sem framreiddir eru á Slippnum einhverskonar fiskréttir.  

“Eini kjötrétturinn sem við erum með er íslenskt lamb af því að það er sjálfbært. En við höfum ekki alltaf gert þetta svona, við byrjuðum aðeins öðruvísi að því leytinu til að við vorum með meira úrval af kjöti. En með árunum erum við að horfa í að verða sjálfbærari og gera betur. Við hættum að bera fram kjúkling og naut og höfum aldrei boðið upp á lunda vegna þess að það er ekki sjálfbært. Þetta eru erfiðar ákvarðanir af því að þetta erum bara við fjölskyldan sem erum á bak við veitingastaðinn. Við viljum þó fylgja innsæinu og það sem mér finnst hafa gerst undanfarin ár er að fólk trúir á verkefnið okkar og það vill koma og borða hérna af því að þau sjá hvernig hugmyndafræðin okkar er. Það er líka rosalega verðmætt.  

Slippurinn stendur fyrir það að bjóða upp á drykki og mat sem er einstakur en án þess að setja sig á of háan stall, þetta á að vera fyrir alla.  

“Það sem okkur finnst vera lúxus er að þú fáir poppað þorskroð og loðnuhrogn vegna þess að þú getur bara fengið það hér. Þú getur til dæmis fengið hvítar trufflur út um allan heim en alvöru lúxus er að komast í snertingu við eitthvað sem þú getur ekki fengið annars staðar. Þetta tengist allt inn á stað og stund, ef maður spilar með það er hægt að búa til alvöru töfra. Ég vil að fólk hugsi svona um matinn sem það fær hér, að þetta sé besti matur sem það hefur fengið á því augnabliki. Vonandi er maður að sýna fordæmi fyrir aðra veitingastaði á íslandi. Það koma margir til mín og spyrja um ráð, fólki finnst vera mikilvægt að vera sjálfbær. Það er ekki nóg að  vera bara með góðan mat”. 

Veitingastaðurinn er í gömlu húsi sem heitir Magni. Vélsmiðjan Magni var í húsinu áður fyrr og þjónaði miklum tilgangi. Fyrir aftan húsið var báta slippurinn og þar voru oftast 6 til 8 bátar uppi í slippnum. Í vélsmiðjunni voru búnir til varahlutir til að halda bátaflotanum gangandi. Í þá daga voru yfir 100 bátar í höfninni og þetta hús var því mjög mikilvægt fyrir sjávarþorpið Vestmannaeyjar. Húsið hafði ekki verið notað í yfir 50 ár þegar fjölskyldan tók við því. Fólk tengdi húsið svo mikið við slippinn að Katrín, móðir Gísla sagði að það væri rétta nafnið á staðinn. 

“Pabbi og mamma kynntust á bát, móðir mín var kokkur þegar hún var 15 ára á bátnum hjá afa mínum og þau kynnast þar. Pabbi hefur verið á sjó frá því að hann var 14 ára og hann er að verða 67 í dag. Hann er með sína eigin trillu, vill vera sinn eigin herra. Hann þarf að komast þarna út, það er mikilvægt fyrir hann að komast svona í snertingu við sjóinn. Við njótum góðs af því og fáum fisk sem hann veiðir. Það er rosalega gott að vera með tenginguna alla leið á diskinn. Það er gaman að segja gestunum söguna á bak við réttinn, þá tengir fólk svo sterkt og kann virkilega að meta matinn. Þetta er mikil gjöf í raun og veru alvöru lúxus”.  

Mikil breyting hefur orðið á lífi Gísla eftir að fjölskyldan opnaði veitingastaðinn Slippinn. Hann hafði aldrei unnið á svona veitingastað áður og fjölskyldan var öll að gera þetta í fyrsta sinn. Að sögn Gísla er skemmtilegt að takast á við það að púsla saman fjölskyldulífinu og rekstrinum. 

“Þó að stundum sé þetta flókið eru bestu stundirnar oft á tíðum vinnutengdar. Kannski vantar okkur krækiber á veitingastaðinn í ágúst. Þá förum við bara öll saman og tínum krækiber, og jújú mest fer á staðinn en við tökum eitthvað með heim. Svo oft þegar það er brjálað að gera þá kemur dóttir mín og knúsar mig inn í eldhúsi og það er bara ekkert að því. Ég held að það sé hollt fyrir börn að sjá ástríðu foreldra sinna, það er mikilvægt, að þau komi inn í umhverfið okkar og sjái okkar ástríðu. Þetta er bara lífið, konan mín er líka í sjálfstæðum rekstri, hún rekur hárgreiðslustofu. Þetta er mikil vinna en ég trúi því að það sé rosalega hollt fyrir börnin að sjá hlið foreldra sinna og upplifa í gegnum þau. Við megum ekki aftengja börnin okkar frá raunveruleikanum. Við erum bara búin að búa til okkar heim og okkar líf, erum búin að hanna það eftir því sem við erum að gera hérna. En það hannar enginn líf manns fyrir mann, maður verður að gera það sjálfur. Við erum bara ótrúlega þakklát hvar við erum í dag öll fjölskyldan”. 

Klæddu þig vel

Gísli mælir með