Plastplan X 66°Norður

TextiJóhann Páll Ástvaldsson
MyndirPlastplan og Logi Pedro

Smellan er fyrsta afurð samstarfs Plastplan og 66°Norður. Hönnunarstúdióið og plastendurvinnslan Plastplan hannaði og þróaði smelluna í samstarfi við tónlistarmanninn og vöruhönnuðinn Loga Pedro. Hver hlutur er framleiddur úr plasti sem fellur til hjá 66°Norður og er liður í að stuðla að hringrás þar sem sjálfbærni er í fyrirrúmi.

Smella úr endurnýttu plasti

Hönnunarstúdíóið og plastendurvinnslufyrirtækið Plastplan, sem var stofnað árið 2019, er í stöðugu samstarfi við framsækin fyrirtæki og aðstoðar þau við að taka aukin græn skref í sinni starfsemi.

Smellan er fyrsta afurð samstarfs Plastplan og 66°Norður. Hönnunarstúdióið og plastendurvinnslan Plastplan hannaði og þróaði smelluna í samstarfi við tónlistarmanninn og vöruhönnuðinn Loga Pedro. Hver hlutur er framleiddur úr plasti sem fellur til hjá 66°Norður og er liður í að stuðla að hringrás þar sem sjálfbærni er í fyrirrúmi.

Smellan er fest á mittistösku sem framleidd úr afgangsefni úr verksmiðju 66°Norður. Taskan hentar vel fyrir hvers kyns ferðalög þar sem þú þarft að hafa auðvelt aðgengi af t.d. auka pari af hönskum, síma eða veski. Eitt stórt rennt hólf og renndur vasi að framan með endurskini og vatnsheldum rennilás.

Logi Pedro

Tónlistarmaður og vöruhönnuður

Tónlistarmaður, vöruhönnuður, DJ, tónlistarstjóri og stjórnarmaður fyrir Útvarp 101 og framleiðandi sjónvarpsþátta. Eins konar svissneskur vasahnífur af hugmyndum. Þetta er hreinlega komið á það stig að það er einfaldara að telja upp það sem Logi Pedro er ekki. Hönnunarbrunnurinn hans er langt frá því að vera uppurinn hins vegar. Logi tók þátt í samstarfi milli Plastplan og 66°Norður, en fyrirtækin tvö hafa unnið saman að endurnýjanlegum lausnum í fatageiranum síðustu ár.

66°Norður settist niður með Loga Pedro og ræddi einstakt sköpunarferli, íslenska hönnunarsamfélagið og verkið sjálft – klemmur á mittistöskur sem eru minimalískar og standa á flekamótum fyrirtækjanna tveggja.

Hvernig kom samstarfið til?
„Ég kem inn í verkefnið sem hönnuður í gegnum Plastplan. Þau eru að endurvinna íslenskt plast frá fyrirtækjum og koma þeim í notkun aftur með því að búa til nýjar vörur úr plastinu. Þetta er ótrúlega skemmtilegt þar sem þetta er nýtt fyrir Plastplan að búa til svona vöru úr þessu plasti. Það er ótrúlega skemmtilegt að það sé hægt að framleiða svona vörur á Íslandi.“

Hvaðan kemur innblásturinn fyrir smelluna?
„Plastplan er með ákveðið stílbragð þegar kemur að vörunum sem þeir eru framleiða. Í svona verkefni eru þeir í samstarfi við 66°Norður sem er líka með ákveðið stílbragð. Í rauninni snerist þetta um að taka þetta samstarf og láta hlutina tala saman. Við skissuðum upp alls konar mismunandi útfærslur af klemmum. Við vorum búnir að gera skissur sem voru áhugaverðar og tæknilega flóknar en ákváðum á endanum að fara í klemmur sem eru með einfalda mekaník á bak við þær. Hvernig þær hreyfast. Þetta er frekar einfalt form af klemmu en við leyfum okkur svo að miðla áfram ákveðnu stílbragði.“

Það eru forréttindi að starfa með fyrirtækjum sem eru svona framarlega í nýsköpun og framleiðslu.

Er einhver rauður þráður sköpunarlega séð hjá þér?
„Ég er bara ekki viss. En mér sýnist oft vera tæknileg nálgun á verkefnin mín. Og þegar maður nær að blanda saman tæknilegri nálgun við skapandi ferli þá koma oft skemmtilegar niðurstöður.“

„Eins og hjá Plastplan eru þau með sín eigin framleiðslutæki. Öll tækin sem þau nota til að framleiða vörurnar sínar eru tæki sem þau hafa hannað. Það er ótrúlega gaman að vinna með fyrirtæki sem er svona skringilega tæknilegt. Það eru fá fyrirtæki sem geta verið að framleiða svona dót frá grunni. Þau eru búin að sækja plastið og vinna það með eigin búnaði, til að búa til nýjar vörur.“

Hvernig er tilfinningin að fá hlut í hendurnar sem þú hefur skapað frá grunni?
„Ótrúlega gaman að fá eitthvað í hendurnar sem maður er búinn vinna að. Þetta er svo langt ferli. Rannsóknarferli – mikið verið að skoða, pæla og spyrja spurninga. Mikið af tilraunum. Þannig loksins þegar eitthvað kemur út og er að verða klárt – eins og þetta er búið að vera ár síðan við byrjuðum að teikna þetta. Það er skemmtilegt að fá loksins mótið í hendurnar, svo frumgerðina og á endanum vöru sem er klár.“

Hversu miklu máli skipta svona verkefni?
„Það eru forréttindi að starfa með fyrirtækjum sem eru svona framarlega í nýsköpun og framleiðslu. Plastplan er virkilega spennandi hönnunarfyrirtæki, og frumkvöðlar í sínum geira. Þau endurvinna íslenskt plast og búa til lokaða hringrás. Það er magnað. Sérstaklega því þetta er ungt fólk og þetta er bara hugvit. Þau fóru og gerðu dæmið, og það er svo aðdáunarvert.“

„Svo er gaman að vinna með fyrirtæki sem er með jafn ríka sögu og 66°Norður. Ef þú skoðar vörurnar sem þeir eru að gera. Þetta eru góðar vörur – tæknilega og tískulega. Það er hugvit líka þar. Ég er varla kominn í heiminn sem hönnuður, og er bara mjög hress með að fá að taka þátt í svona ferli.“