Go to content
Innskráning

Verkefnið "Ódrepandi"

66°Norður fagnaði 90 ára afmæli 2016 og höfum við búið til kynstrin öll af fötum, í ýmsum litum og sniðum, til að verja landsmenn og aðra fyrir veðurofsa og allrahanda hrakningum.

Í tilefni af afmælinu vildum við endurnýja kynni af flíkum sem við höfum framleitt í gegnum árin. Því biðjum við ykkur, kæru landsmenn, að svipast um í geymslum eftir gömlum fatnaði frá okkur sem nýtist ykkur ekki lengur.

Við tökum við gömlum flíkum frá ykkur í verslunum okkar og gefum afslátt af nýjum vörum í staðinn. Ef gera þarf við gömlu flíkina (og ef það er hægt) þá gefum við þeim nýtt líf í samstarfi við Rauða kross Íslands.

Svona fær gamla flíkin þín nýtt líf

 1. Þú kemur með gamla 66°Norður flík í næstu verslun. Þegar þú kemur með gamla flík færðu 15% afslátt af nýrri flík. Ef þú býrð ekki í nágrenni við verslanir okkar getur þú sent flíkina með pósti. (Vinsamlegast fylltu út eyðublaðið hér og sendu ásamt vörunni á heimilisfangið sem þar er tilgreint). Ef þú sendir flík með pósti sendum við þér afsláttarkóða eða afsláttarmiða til baka. Við biðjum fólk vinsamlegast að koma með hreinar flíkur.

 2. Við gerum við flíkina ef þörf krefur og gefum til Rauða krossins á Íslands.

 3. Sérstaklega sjaldgæfar og skemmtilegar flíkur verða seldar á uppboði og ágóðinn rennur til góðs málefnis. Þú getur fylgst með uppboðinu á Facebook vef 66°Norður.

Mikilvægt

 • Við tökum á móti öllum 66°Norður fatnaði, en einnig fatnaði sem við höfum framleitt í gegnum tíðina sem merktur er 66°N, Kraft, Max, Kapp, Sjóklæðagerðinni, Belgjagerðinni og öðrum fatnaði merktum einhverju af vörumerkjunum hér að neðan.

 • Við getum því miður ekki tekið við óhreinum fatnaði.

 • Athugið að við tökum ekki við sjó- og vinnufatnaði. Ástæðan er fyrst og fremst sú að óhreinindi, t.d. lýsi og olía, geta smitast í annan fatnað. Ef þú átt hins vegar mjög gamlan sjóstakk sem er vel farinn myndum við gjarnan vilja heyra frá þér – þeim mun eldri, þeim mun betra.

 • Við tökum eingöngu á móti flíkum sem við höfum framleitt, en bendum á söfnunargáma Rauða krossins fyrir annan nýtilegan fatnað sem þið viljið koma í góðar hendur. Staðsetningar þeirra má sjá hér.

Fataverkefni Rauða Kross Íslands

Fataverkefni Rauða krossins er margþætt en megintilgangur þess er endurnýting og endurvinnsla á notuðum fatnaði, skóm og textíl. Fataverkefnið er eitt stærsta fjáröflunarverkefni Rauða krossins á Íslandi. Verkefnið felst í söfnun á fatnaði, skóm og textíl, flokkun á fatnaði, skóm og textíl, sölu hér á landi í búðum Rauða krossins, sölu á fatnaði sem ekki næst að flokka til útlanda, endurvinnslu á fatnaði og úthlutun fatnaðar til berskjaldaðra einstaklinga eða fjölskyldna. Rauði krossinn sendir einnig hlýjan fatnað til Hvíta Rússlands og á aðra staði þar sem neyð ríkir. Fatasendingar til erlendra ríkja er þó ekki framkvæmd nema að mjög vel athuguðu máli. Fatagjafir mega til að mynda ekki hafa neikvæð áhrif á staðbundinn vefnaðariðnað, sé slíkur iðnaður fyrir hendi. Síðast þegar fatnaður var sendur til meginlands Afríku, svo dæmi sé tekið, var það til Síerra Leóne en þá lagðist staðbundinn vefnaðariðnaður niður um tíma þar sem brenna þurfti mikinn hluta fatnaðar í landinu vegna ebólufaraldurs.

Ágóði af fataverkefni Rauða krossins fer í fjögur mismunandi verkefni:

 1. 52% í Hjálparsjóð sem nýttur er til alþjóðlegra verkefna Rauða krossins
 2. 25% til Hjálparsímans 1717 og netspjallið 1717.is. Hjálparsíminn er alltaf opinn og gegnir því hlutverki að veita virka hlustun og ráðgjöf um samfélagsleg úrræði til fólks á öllum aldri sem þarf á stuðningi að halda t.d. sökum þunglyndis, kvíða eða sjálfsvígshugsana. Þar er fólki sýndur trúnaður og einlægni af hlutlausan aðila og má segja að ekkert sé Hjálparsímanum óviðkomandi.
 3. 13% til neyðarmiðstöðvar
 4. 10% til málsvarastarfs, tala máli þeirra sem hafa enga eða takmarkaða rödd í samfélaginu.

Hvað verður um fatnaðinn sem er gefinn?
Rauði krossinn hvetur almenning til að skila fatnaði og öðrum vefnaðarvörum í grenndargáma sem má finna um allt land. Innihaldi gámana er safnað saman í flokkunarmiðstöð fatasöfnunar Rauða krossins. Sjálfboðaliðar sjá um að flokka fatnað undir handleiðslu verkefnisstjóra. Eigulegur fatnaður er tekinn til hliðar til að hann megi endurselja í fataverslunum Rauða krossins. Þannig getur almenningur stuðlað að sjálfbærum og umhverfisvænum lífsstíl með fullnýtingu fatnaðar. Hvort sem fólk kýs að gefa fatnað í grenndargáma eða versla notuð föt á hagstæðu verði í fataverslunum Rauða krossins.

Hvernig er ónýtur fatnaður endurnýttur?
Fatnaður og vefnaðarvara sem fara í endurvinnslu er safnað saman í gáma sem eru fluttir í flokkunar-og endurvinnslustöðvar á meginlandi Evrópu, eða í Hollandi og Þýskalandi nánar tiltekið. Tuskur, ónýtar gardínur eða gömul nærföt eru dæmi um vörur sem eru ekki endurseldar og eru þær þá tættar niður svo úr megi framleiða ný efni.

 

Takk fyrir!

Þú hefur verið skráður á póstlista hjá 66°norður

You are connected to our website

Íslenska | ISK
map To change region select from the selection here to the left
Greiða
Veldu svæði
Iceland Europe North America
Veldu land
Veldu gjaldmiðil
ISK